Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Styttist í að viðræðum verði vísað til sáttasemjara

28.11.2022 - 17:52
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar segir að sú stund nálgist óðfluga að viðræðum við Samtök atvinnulífsins verði vísað til ríkissáttasemjara. Kröfugerð félagsins var rædd á fundi með SA í dag og segir hún viðræðurnar ganga hægt.

„Það sem við fengum var að SA vilja gera kjarasamning á þeim nótum sem ræddar hafa verið við Starfsgreinasambandið og það samflot sem þar er í gangi við allavega Landssambandi verslunarmanna. Það eru skilaboðin til okkar, sem við förum nú og hugleiðum,“ segir Sólveig Anna.

Það er styttri samningur meðal annars? „Já, styttri samningur. Og ef ég skil rétt er verið að leggja upp með prósentuhækkun sem er í andstöðu við okkar nálgun. Við höfum farið fram á krónutöluhækkanir og viljum byggja á módeli lífskjarasamningsins.“ Efling krefst krónutöluhækkana upp á tæplega 170 þúsund í skrefum næstu þrjú ár. 

Samninganefnd Eflingar fór beint á fund eftir viðræður dagsins með SA.„Nú sem sagt förum við sem hér vorum stödd aftur niður í Eflingu og höldum fund og förum yfir það sem við viljum gera. 

Geturðu farið yfir þessa möguleika? „Nei, ég ætla ekki að gera það hér og nú.“

Er einn af þeim að vísa viðræðum til ríkissáttasemjara? „Það er ekki risaskref, það er eitthvað sem allir fara á endanum í gegnum. En vissulega er það eitthvað sem nálgast óðfluga.“