Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Sex marka jafntefli Kamerún og Serbíu

epa10333932 Eric Maxim Choupo-Moting (C top) of Cameroon celebrates with teammate Vincent Aboubakar of Cameroon after scoring his team's third goal during the FIFA World Cup 2022 group G soccer match between Cameroon and Serbia at Al Janoub Stadium in Al Wakrah, Qatar, 28 November 2022.  EPA-EFE/Rolex dela Pena
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Sex marka jafntefli Kamerún og Serbíu

28.11.2022 - 12:00
Önnur umferðin í riðlakeppninni á HM í fótbolta í Katar klárast í dag. Fjórir leikir eru á dagskránni og var fyrsti leikurinn viðureign Kamerún og Serbíu. Bæði lið þurftu sigur til að halda möguleikanum á að komast áfram opnum, leiknum lauk með jafntefli og var hin mesta skemmtun.

Bæði lið töpuðu fyrsta leik sínum, Kamerún gegn Sviss og Serbía gegn Brasilíu, en áttu þó enn góða möguleika á að komast áfram í 16-liða úrslitin. 

Engan André Onana, aðalmarkvörð Kamerún var að finna á skýrslunni fyrir leik, ástæðan er agabann sem markmaðurinn hefur verið settur í og nýjustu fregnir herma að hann sé farinn heim núþegar og leikur ekki meira á mótinu.

Leikurinn byrjaði rólega en eftir hálftíma leik kom fyrsta markið og þar var á ferðinni Jean Charles Castelletto eftir hornspyrnu fyrir Kamerún.

Serbar neituðu að gefast upp og í uppbótartíma fyrri hálfleiks náði Strahinja Pavlovic að jafna metin fyrir Serbíu, þeir létu þó ekki þar við sitja heldur kom Sergej Milenkovic-Savic þeim yfir 2-1 á þriðju mínútu uppbótartímans.

Þetta var þó aðeins byrjunin á ringulreiðinni, Alexander Mitrovic kom Serbum í 3-1 á 48. mínútu og fátt virtist benda til annars en serbnesks sigurs.  Kamerún hafði þó aðrar hugmyndir, á 64. mínútu slapp Vincent Aboubakhar einn í gegn og vippaði boltanum snyrtilega í markið eftir að hafa komið inná sem varamaður stuttu áður. Tveimur mínútum síðar var það svo Eric Choupu-Moting sem jafnaði metin eftir góða skyndisókn Kamerún.

 Þar við sat í leiknum og bæði lið því með eitt stig eftir tvo leiki og þurfa á sigri að halda í lokaleik riðlakeppninnar til að komast áfram. 

Seinni leikur dagsins í þessum G-riðli er Brasilía - Sviss sem hefst 16:00 og er að sjálfsögðu í beinni á RÚV.