Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Húsnæðislaus á fimmtudag

28.11.2022 - 22:38
Mynd: RÚV / RÚV
Sextug kona með MS-sjúkdóminn verður húsnæðis- og aðhlynningarlaus á fimmtudaginn. Þá rennur út skammtímaúrræði sem var vistun á hjúkrunarheimili fyrir aldraða. Lögmaður konunnar segir að svör ríkis og Kópavogsbæjar, þar sem konan hefur lögheimili séu á sama veg. Engin úrræði bjóðist og konan því húsnæðislaus ef ekkert verði að gert.

Margrét Sigríður Guðmundsdóttir er sextug. Hún hefur glímt við MS sjúkdóminn í níu ár og þarf mikla aðhlynningu. Hún hefur í tæp tvö ár búið á hjúkrunarheimilinu Seltjörn á Seltjarnarnesi, þar sem meðalaldur íbúa er miklu hærri en hennar. Vistun hennar þar er skammtímaúrræði sem rennur út um næstu mánaðamót.

Flóki Ásgeirsson, lögmaður Margrétar, segir stöðuna grafalvarlega. „Það er búið að leiðbeina henni um það að hennar hjúkrunarpláss sé ekki lengur fyrir hendi og að það bíði hennar ekki neitt þegar að því lýkur.“

Margrét er með lögheimili í Kópavogi og í svörum frá bænum segir að hún fái ekki þjónustu nema að vara í sjálfstæðri búsetu í sveitarfélaginu og það geti hún ekki. Engin búsetuúrræði séu laus fyrir hana. Bærinn geti því ekkert gert.

Flóki segir að enn sem komið er hafi sveitarfélagið hvorki boðið annað neyðar- né skammtímaúrræði. Ef ekkert breytist fram á fimmtudag eigi Margrét ekki í nein hús að venda. 

„Auðvitað er verið að vinna í málinu og menn eru að freista þess að finna einhverja lausn til bráðabirgða og svo auðvitað  til lengri tíma. En á þessari stundu þá liggur sú lausn ekki fyrir.“

Margréti hefur heldur ekki verið boðin framlenging á vistuninni á Seltjörn.„Hvort það verður nauðlendingin, ég veit það ekki. Það er allavega eitthvað sem ekki hefur verið boðið fram á þessu stigi.“

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi, svaraði fyrirspurn fréttastofu um málið á níunda tímanum í kvöld. Þar vísar hún ábyrgð á málinu til ríkisins. Sveitarfélögin hafi ítrekað minnt á þennan vanda en lítil viðbrögð fengið. Ekki standi á sveitarfélögunum að veita þá þjónustu sem fólk á rétt á að því gefnu að nægilegt fjármagn fylgi málaflokknum.

Mariash's picture
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV