Fyrirtækjum og götum lokað fyrir tökulið True Detective

epa03455659 (FILE) A file picture dated 06 December 2011 shows US actress and director Jodie Foster at the premiere of 'Sherlock Holmes: A Game of Shadows' in Los Angeles, California, USA. Foster will receive the Cecil B. DeMille award at the
 Mynd: EPA - EPA FILE

Fyrirtækjum og götum lokað fyrir tökulið True Detective

28.11.2022 - 17:35

Höfundar

Nokkrum fyrirtækjum við Hafnargötu í Reykjanesbæ verður lokað tímabundið á meðan tökur fyrir sjónvarpsþættina True Detective fara fram. Bæjarstjórinn segir bæjaryfirvöld hafa sett það sem skilyrði að öll þau fyrirtæki sem þyrftu að breyta einhverju fengju tjón sitt bætt.

Í minnisblaði sem lagt var fyrir bæjarráð í byrjun mánaðarins kemur fram að tökurnar á True Detective fari fram víðs vegar um landið.  Upphaflega áttu tökurnar í Reykjanesbæ að fara fram í janúar en því var síðan breytt í nóvember og desember.

Reykjanesbær fær það hlutverk að vera lítið þorp í Alaska.  Fyrirhugaðar eru tökur á Hafnargötunni, Sunnubraut, Þórustíg og á Keili á Ásbrú en samkvæmt minnisblaðinu hafa framleiðendur þáttanna einnig óskað eftir að leigja aðstöðu í gömlu dráttarbrautinni.  

Reykjanesbær birti í dag tilkynningu á vef sínum þar sem kemur fram að töluvert umfang fylgi verkinu. Nokkrum götum verður lokað og sum fyrirtæki verða að skella í lás, einhver í nokkra daga en önnur geta verið með skertan opnunartíma. 

Og þessa dagana er verið að dreifa gervisnjó um miðbæ Reykjanesbæjar.  Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri, segir þetta heljarinnar verkefni. „Við settum það sem skilyrði að allt yrði gert í sátt og samlyndi og að allir sem þyrftu að gera einhverjar ráðstafanir á sínum högum fengju það bætt.“ 

Hann hefur ekki upplýsingar um fjárhæðir en segist ekki hafa heyrt neitt annað en að allir séu ánægðir.

Kjartan Már þekkir lítið til söguþráð þáttanna, annað en að þeir fjalli um rannsóknarlögreglumenn. Og vonar að bærinn fái ekki of slæma útreið þegar þeir verða sýndir á streymisveitunni HBO Max. „Þetta er bara áhætta sem við tökum.“

Tökurnar á True Detective eru þær umfangsmestu sem farið hafa fram hér á landi. Framleiðslukostnaður nemur um níu milljörðum en þættirnir skarta stórstjörnunni Jodie Foster í aðalhlutverki.