Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fjórir ruslaflokkar við öll heimili á næsta ári

28.11.2022 - 12:25
Fleiri ruslatunnur og breytt gjaldtaka á sorphirðu eru í vændum þegar ný lög um meðhöndlun úrgangs taka gildi á næsta ári. Sorphirða verður í fyrsta sinn samræmd á höfuðborgarsvæðinu.

Ýmsar kvaðir fylgja nýju lögunum og hefur meira en helmingur sveitarfélaga þurft að gera breytingar. Þau eru misvel á veg komin og ekki lítur út fyrir að mörg verði tilbúin um áramót. 

Í fyrsta sinn verður samræmt sorphirðukerfi á öllu höfuðborgarsvæðinu. Það verður tekið í notkun með vorinu. 

Höfuðborgarbúar safna lífrænum úrgangi í pappírspoka

Stærsta breytingin er eflaust sú að bannað verður að urða lífrænan úrgang. Þá bætist ein tunna við hvert heimili á höfuðborgarsvæðinu; lífræna tunnan.

Allt sem fer í hana á að safnast í pappírspoka, en hvert heimili fær ársbirgðir af pokum. Svokallaðir lífplastpokar hafa ekki reynst brotna nógu vel niður í jarðgerðarferli hjá Sorpu. 

„Sem gerir það að verkum að þeir virka eins og plastagnir í moltunni. Það viljum við ekki, heldur viljum við sjá þetta brotna algjörlega niður og pappírspokarnir gera það í ferlinu hjá Sorpu,“ segir Gunnar Dofri Ólafsson. Samskipta- og viðskiptaþróunarstjóri hjá Sorpu. Hann segir flesta pappírspoka duga í verkið, en þeir sem hafa verið sérstaklega pantaðir undir lífrænan úrgang henti sérstaklega vel. 

„Meðal annars, vegna þess að eins og þú sérð er prentað dálítið á þá. Þetta blek sem er notað er niðurbrjótanlegt. Þetta er ekki prentarablek heldur sérstakt blek til að komast í gegnum ferlið og þá smita ekki moltuna.“

Grenndarstöðvar breytast og súperstöðvar verða til

Plasti og pappír verður safnað við öll heimili svo að þeir gámar hverfa úr grenndarstöðvum. Þar verður framvegis safnað gleri, málmum, textíl og skilagjaldskyldum umbúðum. 

Svo verða líka svokallaðar súperstöðvar þar sem plast og pappír verður líka safnað. Þær verða í meiri fjarlægð en þær eru hugsaðar til að taka við yfirfalli eftir jól, afmælisveislur, fermingar og svoleiðis þegar pappír og plast safnast upp. 

Gjaldtaka verður í takt við hve miklu fólk hendir

Ekki verður valkvætt að hafa flokkunartunnur heima við eins og verið hefur. Tunnurnar þurfa þó ekki endilega að vera fjórar, en víða verður hægt að fá tvískiptar tunnur. Ekki liggur fyrir hvernig eða hvort kostnaður við það leggist á heimili. Svokölluð framlengd framleiðendaábyrgð á umbúðum fylgir líka lögunum. Framleiðendur og innflytjendur umbúða eiga þá að borga kostnaðinn við förgunina á þessum sömu umbúðum. 

Fyrirkomulagið Borgað þegar hent er verður þá tekið í notkun á öllu landinu, þar sem sveitarfélög eiga að rukka sorphirðugjald í samræmi við hve miklu fólk hendir. Grímsnes og Grafningshreppur og Ísafjarðarbær prófa nú slíka gjaldtöku eftir rúmmáli áður en það er tekið upp á landsvísu.