Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Ég slysaðist bara inn í tónlistina“

Mynd: Angústúra / Angústúra

„Ég slysaðist bara inn í tónlistina“

28.11.2022 - 14:50

Höfundar

Örvar Smárason hefur um árabil gert garðinn frægan á sviði tónlistarinnar. „Það bað mig einhver um að vera í hljómsveit þegar ég var í MH og ég hoppaði inn í það.“ Hann segist þó alltaf hafa stefnt á ritstörf og sendi nýverið frá sér smásagnasafnið Svefngríman.

„Til að segja alveg satt, þá var þetta upprunalega planið, að verða rithöfundur. Ég slysaðist bara inn í tónlistina,“ segir Örvar Smárason sem sendi nýverið frá sér smásagnasafnið Svefngríman. Hann hefur um árabil gert garðinn frægan á sviði tónlistarinnar með hljómsveitum á borð við Múm og FM Belfast og spilað um allan heim. Fyrir nokkrum árum sótti hann um að komast í ritlistarnám við Háskóla Íslands. „Mig vantaði strúktúr í kringum þessa hugmynd mína að ég yrði að skrifa og einhver tímann þyrfti ég að gefa mér pláss til þess,“ segir Örvar. „Það virkaði.“ Örvar ræddi við Felix Bergsson í þættinum Fram og til baka á Rás 2 um skáldskapinn og tónlistina. 

Slysaðist inn í tónlist 

„Það bað mig einhver um að vera í hljómsveit þegar ég var í MH og ég hoppaði inn í það,“ segir Örvar um tilurð tónlistarferils síns. Umrædd hljómsveit hét Andhéri og Örvar og einn meðlimur þeirrar hljómsveitar, Gunnar Tynes, áttu síðar eftir að stofna Múm. „Múm byrjaði bara af því að eftir Andhéraæfingar langaði okkur að gera meira.“ 

Þeir félagar kynntust í MH og Örvar segir það hafa verið lærdómsrík og skemmtileg ár. „Eða sko félagslífið, það var náttúrulega allt í rugli í skólanum hjá mér,“ segir Örvar og skellir upp úr. „Ég sló met, ég útskrifaðist á 6 árum.“  

Ætluðu að gefa út síðust plötu árþúsundsins 

Að útskrift úr MH lokinni var hljómsveitin Múm komin á flug og flutti skömmu síðar til Berlínar. „Ég hafði ekkert val með það, auðvitað fer maður bara beint í það,“ segir Örvar. Hljómsveitin gaf út sína fyrstu breiðskífu á Þorláksmessu árið 1999 undir böndum plötuútgáfunnar Thule. „Við ætluðum að reyna að gera síðustu plötu árþúsundsins. Ég held að einhver annar hafi náð því samt, við rugluðum saman dögum. Við hefðum átt að gera þetta á gamlársdag.“ 

Önnur plata sveitarinnar kom svo út hjá FatCat í Englandi, plötuútgáfu sem gaf meðal annars út Sigur rós auk fjölda annarra sveita. Múm-liðar steyptu sér að fullu í tónlistina. „Á þessum tíma var þetta bara frábært og ég gerði þetta mjög mikið og túraði mjög lengi.“ Örvar segist hafa verið mikið að heiman í tónleikaferðalögum. „Ég vissi að ég þyrfti að gera þetta. Ef maður er að vinna við tónlist er ekki hægt að gera neitt nema full force áfram, taka allt,“ segir hann. „En eftir á að hyggja hefði ég viljað vera meira heima. Sérstaklega þegar yngri dóttir mín var lítil.“  

Stefndi alltaf á ritstörf 

Þó að kall tónlistarinnar hafi komið snemma stefni Örvar alltaf á ritstörf. Hann fór í nám í handritaskrifum í Prag 2005 og lærði svo ritlist í Háskóla Íslands fyrir um 5 árum. Hann segir að sig hafi vantar strúktúr í kringum ritstörf sín og tíma til að sinna þeim. Námið bar tilætlaðan árangur. „Stundum þegar maður fær svona hugmyndir og ætlar að fara eitthvað til þess að láta sköpun gerast virkar það ekki,“ segir hann. „En þetta gekk 100% fyrir mig, að fara í ritlistina. Ég náði að koma út svo mikið af hlutum sem hefðu annars bara orðið eftir í hausnum á mér eða tölvunni.“ 

„Ég er með rosa mikið ADHD og hluti af því að takast á við það hefur verið að koma skipulag á vinnu,“ segir Örvar. „Ég get verið obsessívur í vinnu sem getur virkað eins og agi.“ Hann segist hafa tvo fasa þegar að kemur að vinnu. „Ég er bara með tvo gíra. Bakkgírinn eða beint áfram.“ 

Nóvellunni gekk betur á Ítalíu en Íslandi 

Smásagnasafnið Svefngríma sem kom út nýverið, eftir að Örvar lauk námi í ritlist, eru þó ekki hans fyrstu ritstörf til að líta dagsins ljós og koma út á prenti. Hann var hluti af Nýhil, ljóðahópi og jaðarbókaútgáfu, og gaf út ljóðabókina Gamall þrjótur, nýir tímar og nóvelluna Úfin, strokin árið 2005. „Úfin, strokin var þýdd yfir á ítölsku og gekk eiginlega betur þannig,“ rifjar hann upp. „Ég fór nokkrum sinnum til Ítalíu að kynna hana.“ 

Nú hefur hann stigið fram aftur með bók, rúmum 15 árum síðar. „Ég er pínu nýgræðingur eða er að koma aftur eftir mörg ár. Þannig að ég hlakka til að endurnýja kynnin við þetta allt saman,“ segir hann. Smásagnasafnið Svefngríman varð til samhliða öðrum verkefnum og sögurnar eru úr ýmsum áttum. Örvar segir að smásögurnar séu að fá uppreisn æru á Íslandi um þessar mundir. „Mikið af frábærum smásagnasöfnum hafa komið út á Íslandi síðustu árin og svona aftur meiri virðing fyrir forminu held ég og mér finnst það mjög spennandi.“ 

Örvar ræddi við við Felix Bergsson í Fram og til baka. Í dagskrárliðnum Fimman nefndi hann fimm smásögur sem áhrif höfðu á hann. Smásöguna Konan með hundinn eftir Anton Tsjekhov, The Lottery eftir Shirley Jackson, Sticks eftir George Saunders, The Swim Team eftir Miranda July og Ég skal bjarga þér eftir Rögnu Sigurðardóttur. Hlýða má á þáttinn í heild sinni hér í spilara RÚV.  

Tengdar fréttir

Tónlist

Þriggja turna tal

Menningarefni

múm-liðar spinna vef við þögla kvikmynd