Það var á málþingi í Háskólasetri Vestfjarða sem Stofnun Ólafs Ragnars Grímssonar kynnti nýja fræðanetið. Hringborð Norðurslóða – Arctic Circle, mun í fyrstu annast rekstur fræðanetsins í samvinnu við Háskólasetur Vestfjarða, Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Akureyri og fleiri.
Fræðimenn allsstaðar að úr heiminum til Ísafjarðar
Peter Weiss, forstöðumaður Háskólaseturs Vestfjarða, segir þetta hafa mikla þýðingu. ,,Það munu koma fræðimenn allsstaðar að úr heiminum til Ísafjarðar til að dvelja hér í fræðadvölum." Þannig verði til nokkurs konar föruneyti fræðimanna sem verði um leið sendiherrar Vestfjarða og Háskólasetursins þar. ,,Með þessu tengjumst við þessu mikla samstarfsneti sem Hringborð Norðurslóða, eða Arctic Circle hefur byggt upp."
Fræðadvöl í æskuheimili Ólafs Ragnars
Við rannsóknarstörf sín verður íslensku og erlendu fræðafólki boðið að dvelja í Grímshúsi, við Túngötu 3 á Ísafirði, æskuheimili Ólafs Ragnars Grímssonar. Áformað er að 2-4 fræðimenn dvelji í húsinu á ári og áskilið verður að þeir haldi fyrirlestur, eða taki þátt í sérstökum samræðufundum, ýmist á Ísafirði eða við háskólana í Reykjavík og Akureyri.
Þekking, rannsóknir og nýsköpun um allt land
Kartín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, opnaði málþingið í dag. Hún segir þennan viðburð á Ísafirði lið í að byggja upp rannsóknir, nýsköpun og þekkingu um allt land. Og með fræðadvöl í Grímshúsi náist einnig söguleg tenging. ,,Við erum auðvitað að takast á við áskoranir samtímans á norðurslóðum, loftslagsvána og hag þeirra sem búa í kringum Norðurskautið. Þá skiptir líka máli að hafa ræturnar í sögunni og það má segja að Ólafur Ragnar tengi þarna saman þarna fortíð, nútíð og framtíð með þessu verkefni."