Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Viðbrögð rædd í „þröngum 50-80 manna hópi“

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Kjaraviðræður iðn- og tæknifólks við Samtök atvinnulífsins eru á viðkvæmu stigi, segir formaður Samiðnar. Það hafi verið miður að VR hafi slitið sínum kjaraviðræðum. VR undirbýr nú kynningarherferð um stöðu efnahagsmála. Samtök atvinnulífsins ætla að greina Eflingu frá viðbrögðum sínum við kröfugerð stéttarfélagsins á þriðjudag í „þröngum 50-80 manna hópi“ eins og framkvæmdastjóri SA orðar það.

 

Stéttarfélög fólks í iðnaði eru í samfloti í kjaraviðræðum sem vísað var til ríkissáttasemjara fyrir ellefu dögum. Félögin MATVÍS, Rafiðnaðarsambandið, Samiðn og VM félag vélstjóra og málmtæknimanna, eiga fund með Samtökum atvinnulífsins á morgun. Þá verður launaliðurinn ekki ræddur heldur sérmál.

Líkir hópar hjá VR og iðn- og tæknifólki

„Við höfum átt þó nokkra fundi. Þær svo sem ganga ágætlega en eru á mjög viðkvæmu stigi,“ segir Hilmar Harðarson er formaður Samiðnar.

Hafði það einhver áhrif þegar VR sleit sínum viðræðum á fimmtudagskvöldið?

„Ja, það svo sem alveg hægt að segja það að það eru hópar í VR líkir okkar hópum í Samiðn. Þannig að ég lít svo á að það hefði verið betra að hafa þá í húsi en ég heyri að þeir eru ennþá í umræðunni. Þannig að mér heyrist allir ætla að vera í húsi áfram í vikuna,“ segir Hilmar. 

Vilhjálmur og Ragnar tala saman tíu sinnum á dag

Forystufólk stéttarfélaga sem reyna nú að ná kjarasamningum á almennum markaði eru í miklum samskiptum. Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, ræðir oft við formenn VR, Eflingar og iðnaðarmannafélaganna.

„Við heyrumst oft á dag. Það er þétt og gott samstarf milli allra þessara aðila. Það er mjög mikilvægt að allir stígi saman í takt. Við tölum saman ég og Ragnar Þór, ég veit ekki hvað ég á að skjóta á, tíu sinnum á dag eitthvað svoleiðis,“ segir Vilhjálmur. 

Þá hafði Vilhjálmur rætt í klukkutíma í síma við formann Eflingar. Efling er hluti af Starfsgreinasambandinu en hefur ekki verið í samfloti með því og VR í kjaraviðræðum. Efling hefur kynnt Samtökum atvinnulífsins kröfugerð sína og væntir viðbragða við henni á þriðjudag. Viðræðunum hefur ekki verið vísað til ríkissáttasemjara. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir viðræðurnar við Eflingu í öðrum takti en aðrar viðræður.

Tækifæri til breiðara samtals við Eflingarfólk

„Þau eru með 80 til 90 manna samninganefnd og eru að mæta kannski með helming nefndarinnar á hvern fund. Það litar auðvitað samningaviðræðurnar. Við lítum á þetta tækifæri til að ná breiðara samtali við Eflingarfólk,“ segir Halldór.

Hvernig líst ykkur á kröfugerðina?

„Ég held eins og allar aðrar kröfugerðir þurfi að meta hana heildstætt. En ég mun eiga það samtal í þröngum hópi við 50-80 Eflingarfólk áður en ég ræði við ykkur,“ segir Halldór.

VR sleit viðræðum sínum við Samtök atvinnulífsins á fimmtudagskvöld. Engu að síður er ráðgerður fundur hjá ríkissáttasemjara á þriðjudag með samninganefndum VR, Starfsgreinasambandsins og SA. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að næstu dagar verði nýttir til viðræðna við félagsmenn. Þá er ráðgerð kynningarherferð um stöðu efnahagsmála og svigrúm til kjarabóta. 

Smjör drýpur af hverju strái

„Hér drýpur smjör af hverju strái. Staða allra atvinnugreina, útflutningsgreinanna og atvinnulífsins alls hefur sjaldan eða aldrei verið betri. Fjármálakerfið og bankarnir skiluðu hér yfir 80 milljörðum í hagnað á síðasta ári,“ segir Ragnar Þór.

Ragnar segir að ekki sé verið að undirbúa verkfall. 

„Við ætlum að sjá hvernig þetta gengur í næstu viku. Taka síðan ákvörðun um næstu skref eftir það,“ segir Ragnar Þór.