Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Það var rosa mikið áreiti og mikil ofbeldismenning“

Mynd: RÚV / RÚV

„Það var rosa mikið áreiti og mikil ofbeldismenning“

27.11.2022 - 13:00

Höfundar

Tónlistarkonan Berglind Ágústsdóttir lýsir Reykjavík tíunda áratugarins sem hörðum heimi þar sem erfitt var að vera til og var hún oft lamin úti á götu um hábjartan dag. Þegar hún flutti til Berlínar gafst henni rými til að kanna nýjar hliðar á sjálfri sér og hafði það mikil áhrif á hana sem listamann. Með tónlist sinni vinnur hún oft úr erfiðum tilfinningum og í myndlist reynir hún að skapa öruggt rými fyrir ungar listakonur sem oft er vaðið yfir.

Tónlistar- og myndlistarkonan Berglind Ágústsdóttir hefur gefið út tilraunakennt diskópopp undir eigin nafni um árabil. Í september sendi hún frá sér nýja plötu, Lost at War, sem hún tileinkar vinum sínum Hauki Hilmarssyni og Jóhanni Jóhannssyni. Við gerð plötunnar vann hún úr erfiðum tilfinningum, sorg og missi og kveður við nýjan tón hjá tónlistarkonunni. Lost at War er fyrsta plata Berglindar sem hún gefur út undir listamannsnafninu Siggi Ólafsson, sem er hliðarsjálf listakonunnar. 

Platan hafði verið lengi í bígerð og lá um tíma á hillu hjá útgáfufyrirtæki en fór ekkert lengra. „Svo kom covid og allt breyttist,“ segir Berglind í samtali við Lóu Björk Björnsdóttur í Lestinni á Rás 1. Hún hafði verið að spjalla við vin sinn, Árna Grétar sem er einnig þekktur sem Futuregrapher og rekur útgáfufyrirtækið Móatún 7. „Ég sendi honum þetta að gamni og hann var svo ofsalega hrifinn að hann ákvað að gefa þetta út.“ Í fyrstu taldi Berglind að platan yrði einungis fáanleg á netinu en Árni Grétar ákvað að gefa verkið út á bæði vínyl og kasettu í takmörkuðu upplagi. „Kasettur eru mjög algengar til dæmis í Berlín þar sem ég hef unnið og lifað og starfað,“ segir Berglind. „Þar eru geisladiskar ekki vinsælir, fólk vill annað hvort kaupa vínyl, kasettur eða online, það eru allir í kasettunum í undergroundinu þar.“ 

Lost at War er fyrsta platan sem Berglind gefur út hjá Móatúni 7 en hún hafði áður gefið út plötu hjá Smekkleysu og mikið sjálf. „Bara af því að mér finnst það gaman,“ segir hún.  

Var í ástarsorg, eyddi samfélagsmiðlum og úr varð Siggi Ólafsson 

Berglind hefur áður gefið út tónlist undir eigin nafni en að sögn hefur það verið meiri diskó- og stuðmúsík þar sem hún syngur en tónlistin sjálf er eftir aðra. „En í þetta sinn vildi ég gera tónlist ein og taka svolítið mig út úr því. Þannig mitt egó sé ekki þarna heldur þetta alter ego sem er Siggi Ólafsson,“ segir hún.  

Persónan Siggi Ólafsson kom til Berglindar fyrir algjöra tilviljun. „Fyrir nokkrum árum var ég í ofsalega stórri ástarsorg og ákvað að eyða Facebook-inu mínu,“ segir hún og lýsir sem svo að það hafi verið eins og hún hafi dáið, allt í einu vissi hún ekki af neinu og mundi engin afmæli. Hálfu ári síðar var hún í spunahljómsveit í Berlín þar sem sveitarmeðlimir vildu koma saman á netinu til að skipuleggja tónleika. „Ég fer á Facebook sem Siggi Ólafsson, þetta var bara svona Jon Doe, hefði alveg eins getað verið Ólafur Guðmundsson,“ segir hún. „Svo festist ég á Facebook-inu sem er auðvitað skrímsli sem sogar mann inn, þannig að allt í einu var ég komin þangað aftur og þá bara hélst nafnið. Það er ekki dýpra en það.“ Þegar Berglind hóf svo að gera tónlist sem hún vildi hálfpartinn aðskilja frá eigin andliti lá beinast við að nota nafnið Siggi Ólafsson.  

Að sögn tengdist nafnið á engan hátt kyni, hana hafði ekki langað til að prófa að koma fram sem karlmaður og sjá mun á viðbrögðum eða eitthvað slíkt. „En fólk leggur alls konar meiningu inn í það og það er rosa gaman,“ segir hún og gefur dæmi um hvernig fólk hefur haldið að hún sé orðin trans. „En nei, það var ekkert þannig.“ 

„Mér finnst listin mín alveg oft hafa komið frá dimmum og dökkum stað“ 

Að mati Berglindar er popp- og diskótónlist að einhverju leyti sjálfhverf vegna þess að efnistökin eru iðulega um tónlistarmanninn sjálfan eða ástina. „Þarna vildi ég gera tónlist sem var meira instrumental og meira ein,“ segir hún. „Ég var frekar sorgmædd þegar ég var að gera þessa plötu, það höfðu tveir kunningjavinir mínir dáið á sama tíma, þó þeir væru ekkert tengdir.“ Einnig hafi hún verið gífurlega upptekin af hugmyndum og kenningum um stjörnumerki. „Ég átti erfitt með að syngja og langaði ekki að gera svona partí diskó eitthvað, ég vildi gera eitthvað annað.“ 

Í byrjun hafði hún ekki hugsað sér endilega að gefa tónlistina út heldur var hún að vinna úr tilfinningum og hugmyndum sem hún hafði til að mynda um stríð og ástandið í heiminum. „Í einhverri instrumental tónlist sem er svo kannski bara teknó in the end, ég veit það ekki.“ 

Þetta er þó ekki í fyrsta skipti sem Berglind nálgast tónlistarsköpun frá viðkvæmum stað og segir hún mikið af hennar plötum takast á við ástarsorg og erfiðar tilfinningar. „Mér finnst listin mín alveg oft hafa komið frá dimmum og dökkum stað. Ég fjalla mjög mikið um alls konar tráma og ofbeldi sem maður hefur lent í, svo það er ekkert endilega nýtt.“ 

Erfitt að vera til í Reykjavík tíunda áratugarins  

Berglind hefur varið síðustu ellefu árum meira og minna í Berlín og segir borgina hafa mótað hana á margvíslegan hátt sem listamann. „Ég er auðvitað barn 80’s og 90’s. Reykjavík í 90’s var bara mjög harður heimur,“ segir hún og lýsir því hvernig hún lenti oft í því að vera lamin úti á götu um hábjartan dag fyrir til dæmis klæðaburð. „Það var rosa mikið áreiti og mikil ofbeldismenning. Svona rape-kúltúr einhvern veginn og mjög erfitt, fannst mér, að vera til.“  

Þegar hún hafi komið til Berlínar gafst henni rými til að enduruppgötva sig. „Það er engin saga á bak við þig, þú ert einhvern veginn nýr,“ segir hún. Þannig hafi hún getað kannað nýjar hliðar af sjálfri sér og varð stíll hennar myrkari og goth-kenndari. „Ég veit ekki alveg hvernig ég á að útskýra það en maður getur experimentað meira.“ 

Henni þykir Ísland þó hafa tekið miklum breytingum og þykir fallegt að koma heim núna og sjá hvað hafi breyst til batnaðar. „Það er líka fullt sem er glatað, auðvitað. En ég held að það sé meira space á Íslandi fyrir þá sem kannski skera sig úr á einhvern hátt. Hafa meira leyfi til að vera til.“  

Ofsaleg ofgnótt af listamönnum í Berlín 

Í Berlín sé svo mikið af listamönnum og því ef til vill erfiðara að koma sér á framfæri á meðan hér á Íslandi sé auðveldara að fá athygli fyrir verkin sín. „Það eru mikli færri þannig það þekkjast allir,“ segir hún. „Á meðan úti er það þannig að þú ferð kannski aðra leið heim til þín og þú finnur fullt af nýjum galleríum, það er svo ofsaleg ofgnótt af listamönnum.“ Einnig sé mikið af litlum og ólíkum senum og listamenn geti þannig tilheyrt mörgum mismunandi hópum.  

Hún telur ekki endilega mun á listamönnum í Berlín og á Íslandi, hér sé til að mynda rosalega góð og framúrstefnuleg myndlist í gangi. „Listamenn eru bara listamenn og gera sína list hvar sem þeir eru,“ segir hún. Munurinn sé líklega einna helst sá að sé listin tilraunakennd eða sérhæfð séu færri sem mæti hér heldur en úti.  

Oft vaðið yfir ungar konur í listrænum verkefnum 

Í sinni eigin myndlist hefur Berglind verið óhrædd við að taka nýjar stefnu og prófa sig áfram. Á tímabili vann hún mikið með teikningar og síðan skúlptúra en í augnablikinu vinnur Berglind að röð vídjóverka fyrir Lost at War plötuna sem hún skapar með hinum ýmsu listakonum, hvort sem það eru myndlistarkonur, dansarar eða annað.  

„Ég hugsa öll vídjóin sem samtal, ég er ekki beint leikstjóri sem stjórnar öllu,“ segir hún og þykir mikilvægt að skapa öruggt rými milli sín og listakonunnar sem hún vinni með. Í fyrsta verkinu kemur Isis Pollock fram þar sem Berglind vildi að hún upplifði verkið sem einhvers konar valdeflingu og að hún hefði stjórn á aðstæðum. „Ekki bara að ég sé að varpa á hana einhverjum hugmyndum mínum heldur að við séum í samtali og samvinnu sem mér finnst ofsalega fallegt.“ Hún hafi reynt að skapa öruggan stað fyrir Isis til að vera hún sjálf og prófa sig áfram.  

„Ég man sjálf eftir, því ég starfaði oft sem fyrirsæta eða var að taka þátt í listrænum verkefnum annarra, að stundum veður fólk bara yfir þig. Sérstaklega þegar þú ert ung stelpa, þá er oft erfitt að navigate-a heim einhvers annars,“ segir Berglind og stendur þetta því henni nærri. „Það er kannski bara eitthvað veganesti sem maður gefur áfram.“ 

Mikilvægara að skrásetja en að fá milljón hlustanir 

Fyrir rúmum fjórum árum síðan hóf Berglind að gera tilraunakennda útvarpsþætti á netinu sem kallast Radio Mix Kasette en að sögn var mikil bylgja í því í Berlín. „Þar sem fólk var að gera alls konar tilraunaútvarp og brjóta útvarpsreglur og brjóta reglur um tíma eða form og leika sér með það,“ segir hún. Síðan hafi verkefnið þróast þannig að hún fékk að vera með „alvöru“ þátt á útvarpsstöðinni FM88.4 í Berlín.  

„Þetta er aðallega hugsað sem skrásetning á því tónlistarfólki og listamönnum sem ég bara kynnist á mínum ferðalögum og í kringum mig,“ segir hún og leggur meiri áherslu á geymslugildi heldur en að hver þáttur fái milljón hlustanir. „Bara að það sé til þetta efni, jafnvel eftir 20 til 30 ár sé geggjað að það sé til eitthvað viðtal við þennan listamann sem var þá kannski bara í einhverju mega undergroundi.“ 

„Ég hef aldrei meikað miðla eins og Spotify“ 

Berglind er að vissu leyti grúskari þegar kemur að tónlist og þykir gaman að finna lög héðan og þaðan og hlusta á jaðartónlist sem finnst ekki hvar sem er. „Ég hef aldrei meikað miðla eins og Spotify, mér finnst það hræðilegt og hryllingur og ég get það ekki,“ segir hún. „Þar sem þú getur nálgast allar milljón plöturnar á einum stað,“ bætir hún við og hryllir sig. „Mér finnst miklu fallegra að finna eitt og eitt lag, kaupa kannski plötu á tónleikum hjá einhverju bandi sem þú munt aldrei sjá aftur eða veist ekkert um,“ segir hún.  

„En ég elska útvarp til dæmis og finnst það stórkostlegur miðill,“ segir hún og hefur virkilega gaman að því að skruna í gegnum útvarpsrásir og finna sér eitthvað fyrir tilviljun, þar liggi töfrarnir. „Mér hefur alltaf þótt svo vænt um að vera bara um miðja nótt að fara í gegnum útvarpið og finna einhvern æðislegan þátt um eitthvað sem ég hefði annars ekki hlustað á.“ 

„Ég var mjög hissa að fá þau viðbrögð“ 

Plötuna Lost at War hugsar Berglind sem ferðalag fyrir hlustandann og líkir henni við kvikmynd, hún sé línuleg. „Ég myndi mæla með því að hlusta á hana þannig, allavega til að byrja með. Fara í gegnum hana, þó það komi kannski einhver skrítin hljóð eða eitthvað sem þér finnst ekki áhugavert, leyfa því að fara í gegn eins og þú værir að horfa á bíómynd.“  

Titill plötunnar er fenginn frá hugmyndum Berglindar um dauðann, þegar verkin voru samin hugsaði hún mikið um einhvern sem væri týndur í stríði en einnig um stjörnuspekiviðburð sem fjallar um átök og umhverfi. Viðbrögðin hafa verið margvísleg þar sem sumir upplifa plötuna eins og kvikmyndatónlist en sumum finnst hún vera hreint teknó - „sem mér fannst rosa gaman að heyra því ég var ekkert endilega að hugsa það þannig þegar ég bjó það til. Ég var mjög hissa að fá þau viðbrögð að fólk var bara að dansa og fíla þetta.“ 

Rætt var við Berglindi Ágústsdóttur í Lestinni á Rás 1. Hægt er að hlýða á viðtalið í heild sinni hér í spilara RÚV.