Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Sátt milli stjórnar og stjórnarandstöðu í Venesúela

Mynd með færslu
Stjórnarandstæðingar mótmæla í Karakas. Mynd:
Stjórnvöld og stjórnarandstaða í Venesúela undirrituðu í gær samfélagssáttmála fyrir milligöngu norskra stjórnvalda. Viðræðurnar eru haldnar í Mexíkó. Marcelo Ebrard, utanríkisráðherra Mexíkós, segir sáttmálann veita gervallri rómönsku Ameríku von. 

Mikill pólitískur óróleiki hefur verið undanfarin ár í Venesúela. Nicolas Maduro hefur gert hvað hann getur til að halda völdum í landinu, og lýsti sjálfan sig sigurvegara í forsetakosningunum 2018. Því voru stjórnarandstæðingar algjörlega ósammála og sögðu svik hafa verið í tafli. Vesturlönd og fleiri ríki viðurkenndu ekki kosningaúrslitin. Sáttmálinn markar ákveðin tímamót eftir fimmtán mánaða pattstöðu á milli stjórnar Maduro og stjórnarandstæðinga. 

Bandaríkjastjórn var fljót til eftir að sáttmálinn var undirritaður og aflétti olíuviðskiptabanni við Venesúela. Olíurisinn Chevron fær að halda störfum sínum áfram í landinu. Bandaríska fjármálaráðuneytið lýsti því yfir að sáttmálinn væri mannúðlegur samningur sem beinir sjónum að menntun, heilsu, fæðuöryggi, viðbrögðum við flóðum og rafveituverkefnum sem koma venesúelsku þjóðinni til góða.

Venesúela er einstaklega auðugt af olíulindum. Alþjóðasamfélagið beitti sér enn frekar fyrir því að leysa pólitísku deilurnar þar eftir að innrás Rússa í Úkraínu olli skorti á eldsneyti. Þó ríkið sé ríkt af olíulindum búa íbúar þess við mikla fátækt. Talið er að um sjö milljónir hafi flúið landið síðustu ár vegna örbirgðar og óstöðugleika í stjórnmálum landsins.