Nærri þrjú þúsund tonn af vatni flæddu þegar stór kaldavatnsleiðsla við Hvassaleiti í Reykjavík brast í byrjun september. Um hálftíma eftir að fyrsta tilkynning barst var búið að loka fyrir rennslið, en vegna þess að enn var vatn í rörinu hélt áfram að flæða í næstum hálftíma í viðbót.
Endurnýjun á 700 metra kafla
Jón Trausti Kárason, forstöðumaður vatns- og fráveitu hjá Veitum, segir að eftir ástandsskoðun hafi komið í ljós að ekki væri annað í stöðunni en að endurnýja lögnina á um 700 metra kafla, frá Háaleitisbraut niður að Kringlu.
Kostnaður gæti hlaupið á tugum milljóna, eða jafnvel meira. „Lögnin liggur mjög djúpt og það þarf mikið umstang til að komast þarna niður, þannig að þetta er snúin og umfangsmikil framkvæmd,“ segir Jón Trausti.
Lögnin þverar Háaleitisbraut og þar gæti orðið eitthvert rask á umferð, auk þess sem hún liggur undir gönguleið meðfram Miklubraut. „En stórar umferðargötur verða held ég ekki mikið undir í þessu.“
Tæring og jarðhræringar meðal orsaka
Lögnin er frá 1962 og því orðin sextíu ára. Ekkert benti til að hún væri farin að gefa sig, sögðu forsvarsmenn Veitna í september.
Síðan þá er búið að leggjast yfir orsakirnar en Jón Trausti segir þó erfitt að finna út nákvæmlega hvað gerðist. Tæring var komin í lagnirnar og líkur eru á að hreyfingar á jarðvegi í jarðskjálftum hafi spilað inn í.
Þrátt fyrir að stofnæðin verði lokuð fram á vor hefur það ekki haft áhrif á vatnsdreifingu til neytenda, og ætti ekki að gera það.
Vatnsveitukerfið er hringtengt og tvær lagnir veita vatni frá Gvendarbrunnum í Heiðmörk yfir í vesturhluta borgarinnar. „Það hefur enginn misst vatn við þetta og mun ekki gera það að óbreyttu,“ segir Jón Trausti, en viðurkennir að afhendingaröryggi sé ótryggara með svo mikilvæga lögn ónothæfa.
Þvertekur fyrir uppsafnaðan viðhaldshalla
Leiðslan sem fór í sundur í september er ekki sú fyrsta, sem brestur í borginni með tilheyrandi tjóni.
Í ársbyrjun 2021 gaf lögn í Vesturbæ Reykjavíkur sig með þeim afleiðingum að vatn fossaði inn í kjallara nokkurra bygginga Háskóla Íslands, þar á meðal Háskólatorg.
Aðspurður segist Jón Trausti þó ekki telja að uppsöfnuð viðhaldsþörf sé í lagnakerfi Veitna. Það sé hins vegar í eðli veiturekstrar að ófyrirséðir atburðir komi upp. „Þetta er náttúrulega mikið kerfi og allt falið undir yfirborðinu.“ Hins vegar þurfi stöðugt að halda lögnum við.