Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Kósóvó krefst þess að FIFA refsi Serbum

epa05288123 (FILE) A file picture dated 05 March 2014 of a supporter of Kosovo during the international friendly soccer match between Kosovo and Haiti in Mitrovica, Kosovo. The Football Federation of Kosovo (FFK) was accepted as a member of the UEFA on
 Mynd: EPA

Kósóvó krefst þess að FIFA refsi Serbum

27.11.2022 - 22:06
Aganefnd alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA ætlar að skoða hvort refsa beri serbneska knattspyrnusambandinu fyrir fána sem hengdur var upp í klefa landsliðsins fyrir leik þess gegn Brasilíu á HM í Katar.

Knattspyrnusamband grannríkisins Kósóvó kvartaði til FIFA eftir að hafa séð myndir af fánanum. Á fánanum er Kósóvó hluti af Serbíu ásamt slagorðinu „það verður engin uppgjöf.“ Kósóvó lýsti yfir sjálfstæði frá Serbíu árið 2008, en Serbar hafa aldrei viðurkennt það.

Í reglum FIFA er algjört bann við móðgandi hegðun og brotum á drengskaparreglum sambandsins. Auk þess má ekki nota íþróttaviðburði til þess að auglýsa skoðanir á öðru en íþróttum.

Hajrulla Ceku, íþróttamálaráðherra Kósóvó, lýsti reiði sinni á Twitter. Hann sagði myndirnar sem birtust úr klefa Serbíu svívirðilegar, með hatursfullum skilaboðum um þjóðarmorð og full af útlendingahatri. Hann sagðist búast við skýrum skilaboðum frá FIFA, þar sem Kósóvó er fullgildur aðili að FIFA og UEFA, knattspyrnusambandi Evrópu.

Kósóvó gekk í FIFA og UEFA árið 2016. Knattspyrnusamband Kósóvó sagði í yfirlýsingu að það væri algjörlega óásættanlegt ef FIFA þaggaði málið niður. Þess er krafist að Serbíu verði refsað fyrir flaggið.