Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Tugir teknir í alþjóðlegri aðgerð gegn glæpasamtökum

26.11.2022 - 20:28
Mynd með færslu
Höfuðstöðvar Europol í Haag í Hollandi. Mynd: EPA - ANP
44 voru handtekin í sameiginlegri aðgerð ellefu Evrópusambandsríkja gegn glæpasamtökum í ríkjunum. Samtökin eru talin hafa unnið náið saman á milli ríkja, og saman myndað eina hættulegustu glæpaklíku Evrópusambandsins.

Rannsókn sem gerð var í átta ríkjum ljóstraði upp um samvinnu nokkurra glæpasamtaka við ýmis konar stórfellda glæpastarfsemi bæði innan og utan Evrópusambandsins. Þar á meðal var eiturlyfjasala, peningaþvætti og auðgunarbrot. Í vikunni var gerð húsleit á 94 stöðum víðs vegar um Evrópu.

Rannsókninni var beint gegn leiðtogum glæpasamtakanna og aðstoðarmönnum þeirra. Samtökin voru með starfsemi í Litáen, Lettlandi, Tékklandi, Póllandi, Frakklandi, Þýskalandi og Slóvakíu. Dóms- og lögregluyfirvöld í Litáen leiddu rannsóknina. Hún teygði svo anga sína til Noregs og Bandaríkjanna.

Yfirvöld lögðu hald á mikið magn eiturlyfja á borð við kókaín, hass, kannabis og amfetamín við rannsóknina. Samtökin eru talin tengjast umfangsmiklum eiturlyfjaútflytjendum utan Evrópusambandsins, segir í fréttatilkynningu Europol.

Jari Liukku, yfirmaður deildar Europol sem rannsakar skipulagða glæpastarfsemi, sagði að aðgerðinni lokinni að hún sýndi að löggæslu- og dómsmálayfirvöld gætu unnið vel saman þvert á landamæri líkt og glæpasamtök. Aðgerðin sýndi hversu öflugar og umfangsmiklar aðgerðir yfirvalda gætu verið þegar snúið væri bökum saman gegn stórum glæpahópum, sama hvar þeir héldu sig.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV