Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Tólf saknað eftir mikil skriðuföll á ítalskri eyju

26.11.2022 - 12:50
epa10329616 The area affected by the landslide in Casamicciola, Ischia Island, Southern Italy,  26 November 2022. Thirteen people went missing on 26 November after heavy rains caused a landslide on the Italian island of Ischia.  EPA-EFE/ANSA ITALY OUT. BEST QUALITY AVAILABE.
 Mynd: EPA-EFE - ANSA
Tólf manns er saknað eftir mikil skriðuföll á ítölsku eyjunni Ischia, rétt utan við Napólí borg. Leðjuskriða streymdi þar í gegnum bæinn Casamicciola Terme snemma í morgun, eftir miklar rigningar í nótt. Innanríkisráðherra Ítalíu, Matteo Piantedosi, segir að engin dauðsföll hafi verið staðfest, en ítalskir fjölmiðlar greindu frá því í morgun að átta hefðu látist. Piantedosi segir að hjálparstarf sé nú í fullum gangi, en veðuraðstæður geri björgunarfólki erfitt fyrir.

Um þrjú hundruð manns hafa þurft að yfirgefa heimili sín á eyjunni og talið er að um eitt hundrað séu föst í húsunum sínum í hæðunum fyrir ofan bæinn. Stjórnvöld á Ischia hafa beðið íbúa eyjunnar að halda sig heima við, svo björgunarlið geti unnið óhindrað. 

 

Björn Malmquist
Fréttastofa RÚV