Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Rannsaka bóluefni sem gæti varið fólk gegn allri flensu

26.11.2022 - 11:15
Mynd með færslu
 Mynd: burst.shopify.com
Hópi vísindamanna hefur tekist að búa til bóluefni sem gæti varið fólk gegn öllum 20 þekktum afbrigðum flensu. Vísbendingar eru um að bóluefnið getið komið í veg fyrir faraldra framtíðarinnar.

Árleg flensusprauta er vel þekkt fyrirbæri. Bóluefnið er uppfært reglulega eftir því sem flensa stökkbreytist. Þessi árlegi eltingarleikur gæti hins vegar verið úr sögunni.  Hópur vísindamanna birti í gær grein í tímaritinu Science, þar sem þessu er lýst.

Vísindamennirnir segja að nýja bóluefnið geti varið gegn öllum 20 afbrigðum hefðbundinnar flensu og þjálfað ónæmiskerfið að bregðast við flensu sem sífellt stökkbreytist. Þá eru vísbendingar um að bóluefnið nýja geti komið í veg fyrir faraldra framtíðarinnar. Þær flensusprautur sem áður hafa verið teknar í notkun í heiminum hafa ekki státað af þessum eiginleika. 

Þetta er á rannsóknarstigi, segir einn vísindamannanna við breska ríkisútvarpið. Rannsóknirnar gefa tilefni til mikillar bjartsýni en við prófanir á mönnum eru enn framundan.

Svínaflensan árið 2009 og spænska veikin árið 1918 eru á meðal þeirra faraldra sem vonast er til að hægt verði að fyrirbyggja að verði að nýju með nýja bóluefninu. Bóluefnin sem til eru í dag gætu það ekki, en það gæti verið að breytast með þessu, segja vísindamennirnir. 

oddurth's picture
Oddur Þórðarson
Fréttastofa RÚV