Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Mikið um sprautur og blóðbletti í bílastæðahúsi

Mynd: RÚV / RÚV
Fólk með fíknivanda og heimilislausir venja komur sínar í bílastæðahús við Vesturgötu og komast þaðan upp á efri hæðir hússins þar sem eldra fólk býr. Heilsugæslustöð miðbæjar er í húsinu og hefur starfsmaður hennar orðið fyrir líkamsárás þegar hann reyndi að komast úr bílastæðahúsinu inn í heilsugæslustöðina. Bílastæðahúsið er orðið að neyslurými borgarinnar, segir framkvæmdastjóri lækninga.

Frá því fyrir klukkan átta á morgnana til klukkan fimm á daginn gengur öryggisvörður, á vegum Heilsugæslunnar,  um bílastæðahúsið við Vesturgötu í Reykjavík. Í húsinu er Heilsugæslustöð miðbæjar, dagvist aldraðra og svo íbúðir fyrir eldri borgara á 2. og 3. hæð. 

Óskiljanlegt að þetta sé látið viðgangast

„Það verður að segjast að bílastæðahúsið er mjög erfitt þar hefur bara verið látið viðgangast bara neysla og ógæfufólk sem er þar sem á ekki annars staðar að venda. Þetta er mjög truflandi. Þetta er mjög vond aðkoma og í rauninni algjörlega óskiljanlegt að þeir sem bera ábyrgð á bílastæðahúsinu látið það viðgangast, að þetta er neyslurými borgarinnar,“ segir Sigríður Dóra Magnúsdóttir framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Úr bílakjallaranum er ólæst að lyftunni. Með því að fara inn í lyftuna er hægt að komast inn á ganginn þar sem eru íbúðir fyrir eldri borgara á 2. og 3. hæð. Í setustofu fyrir framan íbúðaganginn á 2. hæð hefur oft fundist einhver illa til reika sofandi á gólfinu við heitan ofninn.

Þvag, hægðir, sprautunálar og blóðblettir

„Ég held að það sé nú bara allt í gangi þarna sem er í undirheimunum því miður. Það er verið að sprauta, það er verið að reykja, það er verið að hvíla sig og sofa og eitthvað svona. Fyrir utan það ef fólk er í mikilli neyslu þá hefur það oft ekki stjórn á þvagi og hægðum og ælir og allt saman. Þetta er bara oft á tíðum virkilega slæmt ástand þarna niðri. Blóðblettir og fyrir utan allt sem er skilið eftir. Þarna eru notaðar nálar og tóm lyfjahylki,“ segir Sigríður Dóra.

Eftir að ráðist var á starfsmann heilsugæslustöðvarinnar var ákveðið að ráða öryggisvörð og greiðir Heilsugæslan ein fyrir þá þjónustu sem er töluvert dýr. 

Slæmt ástand mjög lengi

„Í kjölfarið á alvarlegri árás. En líka af því að það var búið að vera órólegt hérna mjög lengi. En þetta er sambýli. Þetta er Reykjavíkurborg, þetta er Bílastæðasjóður, þetta er félagsþjónustan og þetta er ríkið sem eiga hérna eignir og það er eins og það sé að trufla að það sé tekin einhvern ákvörðun. Bílastæðasjóður hefur vísað þessu frá sér og félagsþjónustan hefur vísað þessu frá sér. Það þarf að finna einhverja sameiginlega lausn á þessu máli. Ekki það bara að einn aðili í húsinu sé að standa straum af öllum kostnaðinum,“ segir Sigríður Dóra.

Fréttastofa hafði samband við Reykjavíkurborg. Þar er verið að skoða málið en bent er á að Vettvangs- og ráðgjafateymi Reykjavíkurborgar fari reglulega í skoðunarferðir. Teymið stefni á að fara oftar í Bílastæðahúsið við Vesturgötu. Einkum sé lögð áhersla á slíkar vettvangsferðir á veturna. Þá hafi verið lausnir skoðaðar eins og læsa hurðum en fallið frá þeim þar sem það samrýmist ekki brunavörnum.