Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Endurnýja umdeildan kvótasamning við Rússa

26.11.2022 - 10:25
Mynd með færslu
 Mynd: Markús Þ. Þórhallsson
Færeyingar hafa endurnýjað árlegan samning við Rússa um veiðar þjóðanna í lögsögu hvorrar annarar. Færeyska sjávarútvegsráðuneytið greindi frá þessu í morgun. Með samningnum fá færeysk skip að veiða ríflega tólf þúsund tonn af þorski í Barentshafinu, auk annarra tegunda, og Rússar mega veiða rúmlega sjötíu þúsund tonn af kolmunna í færeyskri lögsögu, auk minni kvóta í síld og makríl.

Nánast full samstaða er um samninginn á færeyska þinginu, en gagnrýnendur hafa bent á að hann grafi undan samstöðu vestrænna ríkja gagnvart Rússum vegna innrásar þeirra í Úkraínu. 

Í fréttatilkynningu færeyska sjávarútvegsráðuneytisins kemur fram að þorskkvóti Færeyinga í Barentshafinu verði 20% lægri í ár, vegna verri stöðu þorskstofnsins á þeim slóðum. Samningurinn var fyrst gerður árið 1977 og hefur árlega verið endurnýjaður. Fram hefur komið að þessi samningur standi undir um fimm prósentum af vergri landsframleiðslu Færeyja 

Björn Malmquist
Fréttastofa RÚV