Útlínur að poppi

Mynd með færslu
 Mynd: Sony - Krassasig

Útlínur að poppi

25.11.2022 - 10:30

Höfundar

Krassasig er samnefnd plata listamannsins Krassasig (Kristinn Arnar Sigurðsson). Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í gripinn sem jafnframt er plata vikunnar á Rás 2.

Arnar Eggert Thoroddsen skrifar:

Kristni Arnari Sigurðssyni er margt til lista lagt og hefur hann dýft tám í alls kyns listavinkla, komið við sem leikmyndahönnuður, leikstjóri og tónlistarmaður svo eitthvað sé nefnt. Tónlistina vinnur hann í einrúmi, semur lög og texta auk þess að spila á öll hljóðfæri og upptökustýra. Plata þessi hefur verið lengi í smíðum en drög að fyrstu lögunum urðu til 2019. Auk Kristins koma við sögu þau Magnús Jóhann, Rubin Pollock, Guðlaug Sóley, Sverrir Arnórsson og Magnús Øder.

Tónlistin er einslags rafpopp, giska móðins, og hefjast leikar með „Ósýnileg“. Röddin „unnin“ skemmtilega, smá Sin Fang jafnvel og nettur Skandipopp blær yfir (Peter, Bjorn og John?). Ágætt lag og viðlagið temmilega grípandi. Næsta lag er hins vegar hálfkarað og hljómar eins og óklárað. Klifað á sömu setningunni út lagið og tæpu mínúturnar fjórar því ansi langar. Hér hefði þurft meiri þéttleika, brú, bara eitthvað, því að ekki er þetta kræsilegt. Næstu lög eru meira og minna í þessum sama gír. „Leiðir sem að ná saman“ er t.d. meiri stemning en lag. Endrum og eins rís platan þó upp við dogg, „1-0“ er vel hresst og tempóið og ákefðin bjargar því. „Útlína“ er besta lagið, fönkað rafpopp með smá Air-blæ. Af hverju er það best? Jú, rétt undir restina kemur vel til fundin hækkun sem fer með það á annan stað. Dásemd. Þessa brellu hefði mátt nota mun oftar því að nánast öll hin lögin rúlla áfram í sama uppbrotslausa gírnum.

Þetta er móðins og „hipp“, ég gef Krassasig það, en sjálf tónlistin þarf einfaldlega meiri vinnu. Fyrirsögnin er bókstafleg því hér má oftast finna útlínur að poppi hvar láðst hefur að fylla almennilega inn í. Það eru lög hérna sem gefa vissulega tilefni til bjartsýni en það þarf engu að síður að setjast þétt upp að teikniborðinu fyrir næstu umferð.

Tengdar fréttir

Tónlist

Alveg meiriháttar

Tónlist

Frjálst er í fjallasal

Tónlist

Ljúflingslögin nýju

Tónlist

Lykkjur og ljósbrigði