Útilokar að her Hvíta Rússlands ráðist inn í Úkraínu

epa08691090 A handout photo made available by Belta shows Belarussian President Alexander Lukashenko during an inauguration ceremony at the Palace of Independence in Minsk, Belarus, 23 September 2020. Lukashenko was inaugurated as President of Belarus, state media reported earlier in the day. The move comes after weeks of protests following an election that the opposition says was allegedly rigged.  EPA-EFE/ANDREI STASEVICH / BELTA HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - Belta
Hvíta Rússland mun ekki taka beinan þátt í stríðsátökunum í nágrannaríkinu Úkraínu að sögn forsetans Alexanders Lúkasjenko, sem útilokar að hvítrússneski herinn verði sendur yfir landamærin. „Við blöndum okkur ekki í þetta, við drepum engan,“ sagði forsetinn, sem segist þó styðja Rússa eindregið og gagnrýnir Vesturlönd harðlega.

„Algjör vitleysa“ að senda her til Úkraínu

Lúkasjenko var spurður um það á fundi með rússneskum blaðamönnum hvort til greina kæmi að senda hvítrússneskt herlið til að liðsinna því rússneska við aðgerðir sínar í Úkraínu og svarið var afdráttarlaust. „Það væri algjör vitleysa,“ sagði forsetinn, samkvæmt ríkisfréttastofunni Belta.

„Ef við blöndum okkur með beinum hætti í þessi átök með her og hermönnum, þá gerum við ekkert gagn, heldur gerum bara illt verra,“ sagði Lúkasjenkó.

Yfirvöld í Hvíta Rússlandi segja 35 - 40.000 manns í hernum, en þessi her mun ekki leysa vanda Rússa í nágrannaríkinu að sögn forsetans. „Við blöndum okkur ekki í þetta, við drepum engan, við sendum enga hermenn þangað, því það er engin þörf á því,“ sagði Lukasjenko. Hann sagði Hvíta Rússland styðja Rússa eindregið, en hlutverk þess væri ekki að berast heldur veita þeim stuðning með öðrum hætti.

Rússneski herinn með bækistöðvar í Hvíta Rússlandi

Rússneski herinn er meðal annars með bækistöðvar í Hvíta Rússlandi, nærri úkraínsku landamærunum. Þaðan réðust rússneskar hersveitir inn í Úkraínu strax í stríðsbyrjun og rússneskar herþotur fljúga enn þaðan í árásarferðir sínar. Þá hafa Hvítrússar látið rússneska hernum skriðdreka og önnur stríðstól í hendur.

Segir Pólverja og Bandaríkjamenn hindra friðarviðræður

Á blaðamannafundinum sagðist Lúkasjenko mjög áfram um að stjórnvöld í Moskvu og Kænugarði settust að samningaborðinu og semdu um frið, milliliðalaust. Vesturlönd, með Bandaríkin og Pólland í fararbroddi, komi hins vegar í veg fyrir það fullyrti forsetinn, sem gagnrýndi þau harðlega fyrir vikið.