Sú bók jólabókaflóðsins sem hefur komið mest á óvart

Mynd: RÚV / RÚV

Sú bók jólabókaflóðsins sem hefur komið mest á óvart

25.11.2022 - 09:40

Höfundar

„Þetta er grípandi saga og ég er bara ofboðslega hrifin,“ segir Kolbrún Bergþórsdóttir gagnrýnandi Kiljunnar um nýjustu skáldsögu Hauks Más Helgasonar, Tugthúsið.

Nýjasta skáldsaga Hauks Más Helgasonar segir frá tilkomu tugthússins á Arnarhóli og varpar nýju ljósi á lífið í Reykjavík á seinni hluta átjándu aldar, aumustu þegna landsins og valdhafana sem sýsluðu með örlög þeirra. Árið 1757 sendu sýslumenn erindi til Kaupmannahafnar og báðu um leyfi fyrir að hengja landsins lausgangara í mun meiri mæli en áður hafði tíðkast, svo mikið vesen var að fæða sakamennina og halda þeim uppi. Yfirvöldum í Kaupmannahöfn leist aldeilis ekki á þessa hugmynd og skikkuðu sýslumennina til að reisa tugthús í staðinn.  

„Ég ætla að segja að engin bók í þessu jólabókaflóði hefur komið mér jafn mikið á óvart,“ segir Kolbrún Bergþórsdóttir í Kiljunni á RÚV. Sagan er sögð í skýrsluformi og er nákvæm frásögn á þeim hörmungum og eymd sem ríkti þar sem Forsætisráðuneytið er nú til húsa. „Þegar ég byrjaði að lesa þá vissi ég ekkert,“ heldur Kolbrún áfram og segist ekki hafa vita hvort um var að ræða sagnfræði eða skáldsögu. „Hún er þannig að það tekur smá tíma að komast inn í hana, bara smá tíma, en þá trúir maður hverju einasta orði. Ég var algjörlega heilluð.“ 

Að mati Kolbrúnar tekst Hauki Má gífurlega vel að vekja til lífsins látið fólk, fólk sem hefur grafist í sögunni, sem átti hörmulega ævi og var oft dæmt fyrir litlar sakir, veslaðist upp og dó. „Þetta er grípandi saga og ég er bara ofboðslega hrifin af þessari bók,“ segir Kolbrún uppnumin. „Þetta er bók sem ég á eftir að lesa aftur.“ Þetta sé tímabil sem hún þekkti lítið til fyrir lestur og kann að meta heilmikla heimildarvinnu höfundar. Verkið þykir henni vel skrifað og lifði hún sig inn í söguna.  

Til sögunnar telur gífurlega stórt persónugallerí og koma fyrir alls kyns skrautlegir karakterar. „Ég taldi mig þekkja þessa sögu giska vel. En svo kemur náttúrulega í ljós, sem maður þannig séð vissi, að djúsinn er í smáatriðunum,“ segir Þorgeir Tryggvason. „Það skiptir máli að telja upp allt þetta fólk, segja fyrir hvað það var dæmt, hvaðan það kom, hvernig því vegnaði í fangelsinu og hvað það tórði lengi við þessar hörmulegu aðstæður,“ segir hann. „Og þessa endalausu fölsun á upplýsingum um hvernig það dó, sem er einhvern veginn ljóst af sögunni er aðbúnaður, harðræði og sultur.“ 

Í fyrri hluta sögunnar segir frá því hvernig föngunum var gert að byggja fangelsið sjálfir sem Þorgeir segir vekja hugrenningatengsl við Gúlagið. „Þar sem farið var með menn til Síberíu og sagt: Nú byrjið þið að byggja bjálkakofa og þeir ykkar sem frjósið ekki í hel á leiðinni getið búið þar. Þetta er svolítið þannig.“ Næstu hálfu öldina hírðust konur og karlar í tugthúsinu við Arnarhól fyrir margvísleg brot við hörmulegar aðstæður um leið og aðallinn skemmti sér í næsta herbergi þar sem þetta var eina skikkanlega húsið í bænum. Hálfgerð skrípamynd er máluð upp af lífinu í Reykjavík þar sem alls kyns furðufígúrur fara í gegn. „Hann hefur sankað að sér, að manni finnst, öllu sem hann gat sankað að sér og setti allt í bókina,“ segir Þorgeir. „Og hann gerir það ofboðslega vel,“ bætir Kolbrún við. 

Einnig er morð eins fanga rakið í löngu máli sem Þorgeir telur að margir höfundar hefðu veigrað sér við og reynt að stytta sér leið í frásögninni. „En hann gerir það bara ekki og það er mjög dýrmætt.“ 

Kolbrún Bergþórsdóttir og Þorgeir Tryggvason fjölluðu um bókina Tugthúsið eftir Hauk Má Helgason í Kiljunni á RÚV. Hér er hægt að horfa á þáttinn í heild sinni. 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Aðdáendur Auðar Övu verða ekki fyrir vonbrigðum

Bókmenntir

„Allt er þetta þrususkemmtilegt“

Bókmenntir

Hreinræktaður vitsmunalegur vísindaskáldskapur

Bókmenntir

Arnaldur sá glæpahöfundur sem skrifar langbest