Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Segir snörur lagðar fyrir neytendur á afsláttardögum

Mynd með færslu
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Formaður neytendasamtakanna biður neytendur um að vera á varðbergi, talsvert beri á afsláttarsvindli þetta árið. Netsvindlarar nýta sér líka afsláttartíðina til að herja á neytendur. 

Tveggja og hálfrar viku langri afsláttardagatörn lýkur á mánudaginn þegar dagur netverslunar, cyber monday, hnýtir endahnútinn á kaupæðið. Verðlagseftirlit ASÍ og Neytendasamtökin hafa fengið nokkurn fjölda tilkynninga á sitt borð um afsláttarsvindl. Breki Karlsson er formaður Neytendasamtakanna. 

„Að verslanir hafi hækkað verð í aðdraganda tilboðanna til þess að geta lækkað það aftur og jafnvel þá í það sama og það var áður en tilboðin voru. Það er náttúrulega alvarlegt og stenst ekki lög. Við biðjum neytendur um að vera á varðbergi."

Jafnframt hvetur hann neytendur til að senda ábendingar til Neytendastofu sem hefur eftirlit með villandi markaðssetningu. „Neytendastofa tekur síðan ákvörðun í framhaldi hvort þau hafi sterkt mál í höndunum og munu væntanlega leggja þá sektir á þau fyrirtækinu sem eru augljóslega að brjóta gegn réttindum neytenda."

Hann segir líka áberandi að netþjófar nýti sér afsláttaræðið til að fanga athygli fólks. Tækni þjófanna sé sífellt að verða betri og upphæðirnar sem þeir ná hærri. „Það hefur borið mikið á því að netbófar eru að leggja snörur sínar fyrir landsmenn um þessar mundir. Þá leggjum við áherslu á að fólk hafi varann á og hugsi sig tvisvar um þegar það fær tilkynningar um að það þurfi að greiða greiðslur í heimabanka eða að staðfesta eitthvað með sms-i eða slíku."

Breki hvetur alla sem hafa orðið fyrir netsvindli nýlega að leita til Neytendasamtakanna og kynna sér rétt sinn.

hafdishh's picture
Hafdís Helga Helgadóttir