Hvorki SGS né LÍV hafa slitið viðræðum

25.11.2022 - 11:40
Fólk í samninganefndum Samtaka atvinnulífsins, Starfsgreinasambandsins, VR og Landssambands íslenskra verzlunarmanna við fundarborð í salarkynnum ríkissáttasemjara.
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Hvorki Starfsgreinasambandið né Landssamband íslenskra verzlunarmanna hefur slitið viðræðum við Samtök atvinnulífsins. Samtökin hafa verið í samfloti í kjarasamningaviðræðum við VR sem sleit viðræðum við SA í gærkvöld.

Eiður Stefánsson, varaformaður Landssambands íslenskra verzlunarmanna og formaður Félags verslunar- og skrifstofufólks á Akureyri, segir að samninganefnd sambandsins hafi ákveðið á fundi í morgun að halda viðræðum áfram. Þau ætla að mæta á næsta fund með SGS og SA á þriðjudagsmorgun til að sjá hvað er í boði. Hann segir þó að það sem hafi verið rætt til þessa sé rýrt. 

Ekki hefur náðst í Vilhjálm Birgisson, formann Starfsgreinasambandsins og Verkalýðsfélags Akraness, í morgun. Sambandið hélt formannafund í morgun þar sem staðan var metin. Niðurstaðan var að viðræðum yrði ekki slitið. 

Samtök iðnaðarmanna eru í öðru samfloti í kjaraviðræðum. Samninganefndir þeirra ræða við samningamenn Samtaka atvinnulífsins eftir hádegi í dag.