Hádegisfréttir: VR slítur kjaraviðræðum

25.11.2022 - 12:13
Yfirlýsingar fjármálaráðherra í fjölmiðlum í gær þar sem hann lýsti skilningi á stýrivaxtahækkun Seðlabankans hleyptu illu blóði í kjaraviðræður VR við Samtök atvinnulífsins. VR sleit viðræðunum seint í gærkvöldi. Formaður VR segir atvinnurekendur ekki hafa sýnt samningsvilja um launahækkanir. 

 

Forsætisráðherra harmar að VR hafi slitið kjaraviðræðum. Fjármála- og efnahagsráðherra telur að ummæli hans um vaxtahækkun Seðlabankans hafi ekki ráðið úrslitum.

Lögreglan gefur lítið fyrir orðróm um að hefndarárás sé yfirvofandi í miðbænum en hyggst engu að síður stórauka viðbúnað sinn. Skemmtistaðaeigandi býst við rólegri helgi í miðborginni.

Angela Merkel, fyrrverandi kanslari Þýskalands, segist hafa verið orðin valda- og áhrifalaus á vettvangi evrópskra stjórnmála áður en hún lét af embætti í fyrra og hefði ekki getað breytt áformum Rússa gagnvart Úkraínu. Öll fjögur kjarnorkuver Úkraínu eru háð dísilrafstöðvum sem stendur. 

Þjónustusamningur um samræmda móttöku flóttafólks tryggir að sveitarfélög geti boðið betri þjónustu til þess. Félagsmálaráðherra vonast til að fleiri sveitarfélög taki þátt í verkefninu. 

Færeysk stjórnvöld funda með Rússum um framlengingu á fjörutíu og fimm ára gömlum fiskveiðisamningi. Stjórnmálamenn sem áður höfðu lýst sig andvíga framlengingu, í ljósi innrásarinnar í Úkráinu, virðast hafa skipt um skoðun. 

Íran vann dramatískan sigur á Wales í fyrsta leik dagsins á HM karla í fótbolta.
 

 

Frettir's picture
Fréttastofa RÚV