„Fólk mun sjá mun um helgina“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Lögregla verður með stóraukinn viðbúnað í miðbænum um helgina og allt þar til öldur fara að lægja í átökum undirheimanna. Hún telur ólíklegt að alvara hafi verið að baki skilaboðum um yfirvofandi hefndarárásir í miðborginni, þó lögregla verði tilbúin ef átök skyldu brjótast út. 

„Eftir því sem við höfum komist næst þá stóð til, og jafnvel stendur til, að vera með einhverja óknytti og reyna að raska einhverjum viðskiptum á ákveðnum veitingastöðum í miðborginni,“ segir Ásgeir Þór Ásgeirsson aðstoðarlögreglustjóri í Morgunútvarpinu á Rás 2.

Minna mark sé tekið á orðsendingum um að hátt í 500 vopnaðir einstaklingar komi með rútum í bæinn í þeim tilgangi að stinga fólk af handahófi. „Ég held að þetta hafi bara verið eitthvað sem mönnum fannst vera einhver húmor í.“ 

Engu að síður verði fjöldi lögreglumanna í miðborginni. „Við auðvitað ætlum að passa upp á borgina okkar um helgina - eins og við höfum gert hingað til,ׅ“ segir Ásgeir. 

En metið þið það sem svo að einhver fjöldi einstaklinga úr þessum gengjum fari niður í bæ og láti til skarar skríða um helgina? 

„Við auðvitað bara vonum ekki en löggæsla byggist ekki á von. Við verðum að vera tilbúin þegar við segjumst ætla að vera tilbúin og við verðum tilbúin um helgina.“ 

Ásgeir segist ekki geta upplýst um hvernig viðbúnaðnum verði háttað. „En við verðum með fleiri tæki, fleiri menn og við verðum með lögreglumenn sem eru tilbúnir að takast á við erfið verkefni.“

Fjöldinn verði slíkur að það muni ekki fara fram hjá neinum miðborgargesti. „Það er alveg á hreinu að fólk mun sjá mun um helgina. En vonandi að þetta ágæta fólk sem hefur staðið í þessum átökum að það sjái aðeins að sér og verði ekki að draga þessi átök sín í miðbæinn. Ég held að það sé eitthvað sem við hljótum að stefna að, öll í sameiningu,“ segir Ásgeir.