Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Dæmdur fyrir borga börnum fyrir kynferðislegar myndir

25.11.2022 - 15:31
Mynd með færslu
 Mynd: Stocksnap - Pexels
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt nítján ára pilt til fjögurra mánaða skilorðsbundinnar fangelsisvistar fyrir ellefu brot gegn ungum stúlkum, á aldrinum tólf til fjórtán ára. Brotin framdi pilturinn í byrjun síðasta árs þegar hann var átján ára. Pilturinn var ákærður fyrir að greiða stúlkunum yfir 350 þúsund krónur með millifærslum, gegn því að þær sendu af sér kynferðislegar myndir á Snapchat.

Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur en Lögreglan á Vestfjörðum rannsakaði málið.

1,2 milljónir í millifærslum á rúmum tveimur vikum

Þegar lögregla gerði húsleit á heimili piltsins í lok febrúar á síðasta ári fundust margar myndir í síma hans af óþekktum ungum stúlkum. Þegar lögregla aflaði upplýsinga um bankareikning piltsins kom í ljós að hann hafði millifært í 124 færslum hátt í 1,2 milljónir króna, aðallega á ungar stúlkur, á aðeins um tveggja vikna tímabili í febrúar 2021. 

Pilturinn sagði við skýrslutöku að nokkrar stúlkur hefðu beðið hann um pening fyrir mat og hann hefði orðið við því. Hann sagðist ekkert kannast við að hafa beðið um myndir í staðinn eða greitt fyrir myndasendingar.

Í viðtölum í Barnahúsi greindu stúlkurnar aftur á móti frá því að hann hefði boðið þeim pening í skiptum fyrir myndir, aðallega af brjóstum þeirra og rassi.

„Vantaði að losna við þessa peninga“

Pilturinn sagðist fyrir dómi hafa fengið peningana frá föður sínum, sem hann ætti í litlu sambandi við og hann hefði því viljað „losna við peningana“ og hann hefði gefið öllum þeim fé sem beðið hefðu um það.

„Kannaðist hann ekki við að hafa nokkurn tíma rætt við stúlkur á samfélagsmiðlum um að vera „sugar daddy“ þeirra eða beðið um ljósmyndir af þeim gegn greiðslu“, segir í dómnum.

Pilturinn var dæmdur til að greiða yfir 3,2 milljónir króna í sakarkostnað til ríkissjóðs, auk þess að greiða fimm forráðamönnum stúlknanna hverjum um sig 200 þúsund krónur í miskabætur.

Pilturinn var upphaflega ákærður fyrir brot í 22 ákæruliðum, en ákæruvaldið féll frá 9 þeirra í fyrri aðalmeðferð málsins og var hann sýknaður af brotum í tveimur. Eftir stóðu þá þrettán ákæruliðir og var hann dæmdur sekur fyrir 11 brot gegn stúlkum á aldrinum 12-14 ára.

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV

Sögðu að þeim liði illa eftir þær sendu myndirnar

Í þeim þrettán skýrslutökum sem birtar eru í dómnum segja stúlkurnar flestar frá því að pilturinn hafi haft samband við sig í gegnum Snapchat. Þær hafi þar verið spurðar um aldur, en gerandinn hafi þá í einhverjum tilvikum logið um eigin aldur og sagst vera á þeirra reki.

Ein þeirra, sem var tólf ára þegar brotið átti sér stað, sagði í viðtali í Barnahúsi að sér „liði mjög illa eftir þetta“ og að hún sæi eftir því að hafa orðið við bón piltsins. Hann hafi spurt hana hvort hún hafi einhvern tímann átt „sugar daddy“ eða „sykurpabba“ og með því átt við samning um að stúlkan myndi senda honum „flex“, eða myndir af rassinum á sér, í skiptum fyrir pening. Hún hafi þá sent af sér mynd á nærbuxunum og fengið 4.500 krónur fyrir.

Önnur stúlknanna, 13 ára, hafði svipaða sögu að segja. PIlturinn hafi „addað henni á Snapchat“ og beðið um myndir af rassinum á henni. Hún sendi nokkrar myndir af sér, allar sömu nóttina, og fékk 37 þúsund krónur fyrir.

„Kvað brotaþoli sér líða illa yfir þessu og að hún væri að reyna að gleyma þessu,“ segir í dómnum.

Gerandinn nýlega orðinn 18 ára

Dómari segir að við ákvörðun refsingar hafi verið tekið tillit bæði til þess að pilturinn hafi verið ný orðinn átján ára þegar brotin áttu sér stað og að hann hafi aldrei áður verið dæmdur til refsingar. Hins vegar hafi hann framið brot sín á kerfisbundinn hátt og brotavilji verið sterkur og einbeittur.

„Voru brot ákærða til þess fallin að valda brotaþolum andlegu tjóni eða hugarangri,“ segir í dómnum. Ekki hafi verið talin ástæða til að þyngja refsingu, þar sem lífi barns hafi ekki verið stofnað í hættu, það beitt grófu ofbeldi eða barn hlotið líkams- eða heilsutjón.