Árangur Brothættra byggða talinn jákvæður

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Grímsey, Árneshreppur og Bakkafjörður eru meðal brothættra byggða þar sem erfiðlega hefur gengið að stuðla að fólksfjölgun. Verkefnisstjóri byggðaþróunarverkefnisins Brothættar byggðir segir að þrátt fyrir það megi greina árangur í öllum þessum byggðarlögum.

„Í öllum þessum byggðarlögum hafa góð verkefni sprottið upp“

Með búsetuþróun síðustu ára þar sem fólk flykkist úr minni þéttbýlum í stærri, hefur mikilvægi byggðaþróunarverkefna aukist. Verkefninu Brothættar byggðir á vegum Byggðastofnunar hefur verið haldið úti frá árinu 2012 með því markmiði að stöðva fólksfækkun í smærri bæjarfélögum og sveitum. Nú hafa sex byggðarlög lokið þátttöku en en sjö verkefni eru virk. Á meðan sum verkefni virðast hafa borið góðan árangur, líkt og í Skaftárhreppi og á Bíldudal, eru önnur sem ekki virðast hafa náð settu markmiði. Í Grímsey, Árneshreppi, Strandabyggð og á Bakkafirði hefur fólksfækkun verið viðvarandi. Kristján Þórhallur Halldórsson, verkefnisstjóri Brothættra byggða, segir þó að árangur megi greina í öllum byggðarlögum.

„Ég myndi ekki vilja taka svo djúpt í árina að við teldum verkefnin misheppnuð, alls ekki. Ég held að þetta geti t.d. verið spurning um það líka og ekki síður hver lífsgæðin eru og hvernig frumkvæði íbúa er í byggðarlögunum við lok þessa verkefnis. Ég get alveg fullyrt að í öllum þessum byggðarlögum hafa góð verkefni sprottið upp og ég hef fulla trú á að svo verði áfram.“

Vísbendingar um fólksfjölgun og bjartsýni á framtíðina

Strandabyggð á enn eitt ár eftir í verkefninu og því eru vonir bundnar við að það skili árangri. Þar að auki segir Kristján vísbendingar um að á þessu ári hafi orðið örlítil fólksfjölgun í Árneshreppi og því ríki bjartsýni um framhaldið.