600 ungmenni kæra ríkið fyrir ólöglega loftslagspólitík

Mótmælendur í Glasgow
Hin baráttuglaða Greta Thunberg er í hópi þeirra 600 sænsku barna og ungmenna sem standa að kæru Aurora-samtakanna á hendur sænska ríkisvaldinu, fyrir ónógar aðgerðir í loftslagsmálum Mynd: EPA
Baráttukonan unga, Greta Thunberg, og hundruð sænsk ungmenni önnur leggja í dag fram kæru á hendur sænska ríkinu fyrir að reka ólöglega umhverfis- og loftslagspólitík. Um 600 sænsk börn og ungmenni eiga aðild að kærunni sem lögð er fram af samtökum þeirra, Aurora.

Sænska blaðið Dagens Nyheter greinir frá. Þar segir að unnið hafi verið að undirbúningi kærunnar um tveggja ára skeið. „Ef aðgerðir ríkisins í loftslagsmálum eru ófullnægjandi, þá ógnar það mannréttindum okkar í framtíðinni,“ segir laganeminn Ida Edling í viðtali við blaðið.

Lagaleg skylda ríkisins að vernda borgarana til framtíðar

Hún segir að á ríkinu hvíli lagaleg skylda til að vernda mannréttindi borgaranna til framtíðar. Bregðist það þeirri skyldu sinni sé einboðið að kæra.

Í kæru samtakanna segir að sænska ríkið sé að bregðast á mörgum sviðum umhverfis- og loftslagsmála. Meðal annars hafi litlar sem engar rannsóknir verið gerðar á því, hversu mikið Svíþjóð þurfi að leggja af mörkum í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og hlýnun Jarðar, til að standa undir eigin ábyrgð á heimsvísu.

Þýsk og hollensk stjórnvöld þvinguð til að herða sig í loftslagsmálunum

Samtök baráttuglaðra ungmenna hafa lagt fram svipaðar kærur í fleiri Evrópuríkjum. Í Þýskalandi og Hollandi höfðu hinir ungu aðgerðasinnar sigur í málaferlum sínum gegn stjórnvöldum, og þvinguðu þau þannig til að að setja markið hærra í stefnu sinni og aðgerðum í loftslagsmálum.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV