Þórólfur formaður nýs starfshóps ráðherra

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Þórólfur Guðnason, fyrrverandi sóttvarnalæknir, hefur verið ráðinn sem formaður starfshóps um sýklalyfjaónæmra baktería. Starfshópurinn á að móta framtíðarsýn og aðgerðir til að sporna gegn útbreiðslu slíkra baktería.

Þórólfur er þannig ráðinn tímabundið til heilbrigðisráðuneytisins til þess að leiða verkefnið, sem unnið er í samstarfi við matvælaráðuneytið og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið. 

„Sýklalyfjaónæmi felur í sér að bakteríur verða ónæmar fyrir sýklalyfjum sem gerir meðferð ýmissa sýkinga erfiðar og jafnvel ómögulega,“ segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

Fjölþjóðleg rannsókn sem birt var í fyrra sýnir að 1,3 milljónir manna hafi látist á heimsvísu vegna sýklalyfjaónæmra baktería. 

Ástæður þess að bakteríur þróa með sér ónæmi gegn sýklalyfjum eru fjölþættar. Ofnotkun eða röng notkun sýklalyfja meðal manna og dýra vegur þar hins vegar þungt. Einnig getur áhrifa umhverfisins gætt í þessu sambandi, ónæmar bakteríur geta borist í menn með matvælum sem áður komust í snertingu við vatn eða áburð sem í voru ónæmar bakteríur.

Auk Þórólfs munu sitja í starfshópnum:

  • Anna Margrét Halldórsdóttir, tilnefnd af sóttvarnalækni

  • Hólmfríður Þorsteinsdóttir, tilnefnd af umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu

  • Jón Steinar Jónsson, tilnefndur af Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins

  • Karl Gústaf Kristinsson, tilnefndur af Landspítala

  • Lilja Þorsteinsdóttir tilnefnd af Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræðum að Keldum

  • Vigdís Tryggvadóttir, tilnefnd af Matvælastofnun

  • Guðlín Steinsdóttir, án tilnefningar og jafnframt starfsmaður nefndarinnar

oddurth's picture
Oddur Þórðarson
Fréttastofa RÚV