„Slátrar málflutningi fjármálaráðherra“

24.11.2022 - 12:19
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þingmenn stjórnarandstöðunnar segja að lögfræðiálit lífeyrissjóða um ÍL-sjóð slátri málflutningi fjármálaráðherra. Áform ráðherra um lausn málsins hafi verið frumhlaup.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur lýst yfir að til greina komi að slíta ÍL-sjóði með lagasetningu ef ekki takist að ná samkomulagi við skuldabréfaeigendur, sem eru aðallega íslenskir lífeyrissjóðir. ÍL-sjóður, sem var stofnaður til að halda utan um eignir gamla Íbúðalánasjóðs, tapar um einum og hálfum milljarði á mánuði. Bjarni hefur viljað ná samkomulagi við lífeyrissjóði til að lágmarka kostnað ríkisins. Tapið myndi þá hins vegar lenda á lífeyrissjóðum.

Í lögfræðiáliti sem lögmannsstofan Logos vann fyrir lífeyrissjóði kemur fram að fyrirhuguð lagasetning brjóti bæði gegn stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir þingmaður Viðreisnar tók málið upp á Alþingi í morgun.

„Lögfræðiálitið myndi ég segja á kjarnyrtri íslensku slátrar málflutningi fjármálaráðherra í máli þessu. Það er umhugsunarvert og ætti að vera umhugsunarvert fyrir Sjálfstæðismenn ekki síst að það sé verið að tala um það að atlagan að eignaréttindum sé með þeim hætti að hún fari í bága við stjórnarskrá og mannréttindasáttmála,“ sagði Þorbjörg.

Þorbjörg hefur óskað eftir að Alþingi láti vinna fyrir sig sérstakt lögfræðiálit vegna málsins en því hefur hingað til verið hafnað þar sem ráðherra er ekki búinn að leggja fram frumvarp. Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður Samfylkingarinnar líkir áformum ráðherra við kúrekastæla og telur að ekki sé samstaða um málið innan ríkisstjórnar.

„Þetta var frumhlaup ráðherra og það er ekkert sem bendir til þess að stjórnarmeirihlutinn í heild sé með honum í þessari vegferð. Því ef svo væri þá værum við hérna á haus að láta kanna hvort með þessu sé ekki verið að skerða eignaréttinn með ólögmætum hætti, það liggur alveg fyrir í mínum huga,“ sagði Jóhann Páll.