Skrítið að hafa alist upp í opinberum byggingum

Mynd: RÚV / RÚV

Skrítið að hafa alist upp í opinberum byggingum

24.11.2022 - 15:36

Höfundar

Æskuheimili Þórarins Eldjárn er örlítið óhefðbundið. Faðir hans, Kristján, var þjóðminjavörður og þegar Þórarinn var eins árs flutti fjölskyldan í glænýja íbúð á Þjóðminjasafninu. „Það er kannski dálítið skrítið að hafa algjörlega alist upp í opinberum byggingum.“

Þórarinn Eldjárn þekkja flestir landsmenn. Hann hefur skrifað ljóðabækur, smásögur og skáldsögur auk þess að vera stórtækur þýðandi. „Það var bara mjög snemma sem ég fór að hafa áhuga á því að reyna að koma saman einhverjum kveðskap, bara strax í barnæsku.“ 

Æska hans var ef til vill örlítið óhefðbundin eða í það minnsta æskuheimili hans. „Það er kannski dálítið skrítið að hafa algjörlega alist upp í opinberum byggingum.“ Eins árs flutti Þórarinn í stóra og fína íbúð á neðstu hæð Þjóðminjasafns Íslands en faðir hans gegndi embætti þjóðminjavarðar. „Á þeim tíma var þetta tekið alvarlega, að vörðurinn hann átti að verja dótið á safninu.“ Þegar Þórarinn var á nítjánda ári flutti fjölskyldan svo á Bessastaði þegar faðir hans tók við embætti forseta Íslands.  

Óvenjulegt heimili 

Þórarinn leiddi hugann ekkert sérstaklega að því að heimili hans væri óvenjulegt þegar hann var barn. „Það kom fyrir ef maður þurfti að nefna heimilisfang og sagði Þjóðminjasafninu, þá kom alltaf sami brandarinn. Hvort maður væri forngripur og stundum þurfti maður að hlæja kurteisislega til að móðga fólk ekki sem hélt að það væri þau fyrstu til að láta sér detta þessa ótrúlegu fyndni í hug.“ 

Engin öryggisgæsla á safninu 

Þegar safninu var lokað var eitt af kvöldverkum fjölskyldunnar að ganga upp að aðalútidyrunum og læsa þeim innan frá. „Stundum þegar foreldrar mínir voru ekki heima þá þurftum við að gera þetta,“ rifjar Þórarinn upp. Til þess að fyllast ekki skelfingu þegar hann gekk um myrka ganga safnsins fór hann sér hægt. „Ég hafði það fyrir sið að ganga eins rólega og hægt og mér var mögulegt til þess að vera ekki gripinn af panikki.“ 

Engin öryggisgæsla var á safninu á þessum tíma. „Þetta var löngu fyrir daga alls sem heitir Securitas eða eitthvað svoleiðis. Það þótti bara nóg að það væri eitthvað fólk sem ætti heima þarna.“ 

Vaxmyndasafnið og gæslukonurnar í uppáhaldi 

Þórarinn hélt mikið upp á vaxmyndasafnið sem varðveitt var á Þjóðminjasafninu. „Ég hef nú reyndar skrifað sögu sem heitir Eins og vax og það er í raun bara saga þessa merka vaxmyndasafns sem var þarna uppi á efstu hæð og var eiginlega bara gestur sem var troðið upp á safnið.“  

„Við systkinin voru mikið á ferli um safnið,“ segir hann. Þau skoðuðu vaxmyndasafnið, safnkost Listasafn Íslands, sem þá hét Listasafn ríkisins, sem var um tíma á efstu hæð Þjóðminjasafnsins og svo drungalegri muni í kjallara hússins á borð við beinagrindur og annað í þeim stíl.  

Yfir sýningunum sátu á þessum tíma gjarnan konur á besta aldri sem þau systkinin vinguðust við. „Eldri konur, gamlar konur, sennilega samt allar miklu yngri en ég er núna en margar þeirra urðu mjög góðir vinir okkar og sögðu okkur sögur og drógu fram bismark brjóstsykur í poka og gáfu okkur.“ 

Hverfur aftur til æskuslóða í nýrri bók 

Í nýrri bók sinni, Tættir þættir, vitjar Þórarinn æskuslóðanna á Þjóðminjasafninu. Bókin geymir safn 37 áður óbirtra þátta um hitt og þetta. Þar má finna viðhorf, reynslusögur, ferilskrár og minningabrot. Í þættinum Í safninu fer Þórarinn gangandi í huganum að Þjóðminjasafninu og reynir að komast inn í gömlu íbúðina. „Þar kem ég gangandi frá háskólastéttinni og ætla mér að komast inn í gömlu íbúðina, er með lykil en hann gengur ekki lengur. Það er búið að skipta um, mér er ekki treyst.“ Þórarinn rifjar íbúðina upp og ýmislegt í tengslum við hana og safnið sjálft.  

Gamla herbergið nú fyrirlestrasalur 

Hugmyndina að þessum þætti fékk Þórarinn frá Jakobínu Sigurðardóttur. „Sem skrifaði mjög fína bók sem heitir Í barndómi þar sem hún gerir nákvæmlega þetta sama við bernskuheimili á Hornströndum.“ Æskuheimili þeirra beggja eru staðir þar sem enginn býr lengur.  

„Þegar safninu var breytt og það var öllu umturnað og það voru jarðýtur og skurðgröfur að verki þarna inni, þá hvarf þessi íbúð alveg.“ Öll ytri byrði er þó óbreytt. „Ef maður fer í Þjóðminjasafnið og fer gangandi í gegnum kaffistofuna og ætlar inn í fyrirlestrasalinn, þá þegar maður er rétt kominn inn fyrir dyrnar, þá er fyrsti glugginn til hægri, þá er maður staddur í herberginu mínu.“ 

Varð smám saman vanhæfur í önnur störf 

Þórarinn vissi snemma að hann vildi snúa sér að kveðskap. „En það er ekki eitthvað sem er beinlínis hægt að ákveða.“ Hann lagði því stund á nám í bókmenntafræði í Svíþjóð en smám saman tóku ritstörfin yfir önnur störf. „Þegar ég er 25 ára gaf ég út mína fyrstu ljóðabók og síðan varð bara ekkert aftur snúið með það,“ segir Þórarinn. „Smátt og smátt verður maður vanhæfur í önnur störf.“ 

Námsárin í Svíþjóð urðu þónokkur. Fyrst námu Þórarinn og Unnur kona hans í Lundi en fluttust svo til Stokkhólms. „Við fluttum til Stokkhólms og þar áttum við mjög góð ár og eigum alltaf miklar taugar, sérstaklega þangað.“ Unnur, kona Þórarins, lagði stund á nám í veðurfræði í Stokkhólmi og Þórarinn var fyrst og fremst að skrifa. „Ég var farinn að vinna sjálfstætt og að gefa út bækur.“ 

Ungir aðdáendur kunna bækurnar utan að  

Eftir hann liggja nú á fjórða tug bók auk þýðinga. Hann hefur hlotið fjölmargar viðurkenningar fyrir ritstörf sín, ekki síst fyrir bækur sem hann hefur skrifað fyrir börn. Hann lendir gjarnan í því að foreldrar kynni hann fyrir ungum aðdáendum sínum sem lagt hafa ljóð hans á minnið. „Það finnst mér afskaplega ánægjulegt. Sérstaklega vegna þess að það hefur alltaf gerst óvart eða það er þá allt í einu, taka foreldrar eftir því að barnið kann bókina utan að.“ 

Þórarinn segir bundið mál höfða sérstaklega vel til barna því að hljómurinn og takturinn í háttbundnum kveðskap sé náskyldur tónlist. „Enda orðin ljóð og hljóð dálítið skyld.“ Honum finnst mikilvægt að kveikja áhuga barna á kveðskap og íslensku. „Ég tel þetta sé mjög mikil virði einmitt, að ýta undir þetta hvað tungumálið er skemmtilegt.“ 

Rætt var við Þórarin Eldjárn í Mannlega þættinum á Rás 1. Hlýða má á þáttinn í heild sinni hér í spilara RÚV. 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

„Okkur hefur alltaf komið mjög vel saman“

Leiklist

Hvorki uppskrúfaður né lágkúrulegur Hamlet

Bókmenntir

Eins og lélegur orðaleikur 20. aldar grínista