Sérsveitin til aðstoðar - 15 ára piltur stunginn í nótt

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Sérsveit ríkislögreglustjóra verður í miðbæ Reykjavíkur um næstu helgi vegna orðróms um yfirvofandi hefndarárás. Önnur stunguárás var framin í nótt, af fimmtán ára pilt, en ekki er talið að hún tengist árásinni á Bankastræti Club í síðustu viku. Þá var reyksprengju kastað inn á skemmtistað í nótt.

Pilturinn er grunaður um að hafa stungið fimmtán ára jafnaldra sinn í Grafarvogi í nótt. Hann er ekki í lífshættu. Árásarmaðurinn, sem á sér nokkra sögu um ofbeldi  þrátt fyrir ungan aldur  verður vistaður á viðeigandi stofnun. 

„Þetta er bara það sem við höfum verið að óttast og höfum verið að horfa upp á í sjálfu sér. Og eins og hefur komið fram að þá erum við að fara sömu leið og nágrannalöndin hafa séð í gegnum tíðina og við erum að upplifa það núna,“ segir Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn. 

Árásin er ekki talin vera hefndaraðgerð vegna Bankastrætismálsins en síðustu daga hefur borið nokkuð á að bensín- og reyksprengjum sé kastað inn í hús til aðstandenda sakborninga. Nú í nótt var reyksprengju kastað inn á skemmtistaðinn Dubliner í miðbænum, en heimildir herma að einn sakborninga tengist rekstri staðarins. 

Tíu manns eru í haldi lögreglu vegna hnífaárásarinnar á fimmtudag eftir að fimm var sleppt í gær. 

Veistu til þess að þið hafið haft svo marga í haldi?

„Nei, þetta er einsdæmi, í einu og sama málinu. Ef ég man rétt þá vorum við með níu eða tíu einstaklinga í Rauðagerðismálinu í gæsluvarðhaldi á sama tíma en þetta er mesta sem við höfum tekið í einu og sama málinu.“ 

Þá hefur borið á hótunum á samfélagsmiðlum, meðal annars frá ungum manni sem nú afplánar á Litla-Hrauni. Margeir segist hafa vitneskju um þær og að fangelsismálayfirvöld bregðist við. Sömuleiðis hafa orðsendingar gengið manna á milli um að hópur manna hyggi á hefndarárás í miðbænum um helgina. Margeir segir ekki ástæðu til að vara fólk við að fara í bæinn en lögregla verði með talsverðan viðbúnað. 

„Eins og oft þá njótum við aðstoðar sérsveitar í svona málum og höfum fengið aðstoð frá þeim í þeim málum sem þau fást við - það stíga allir um borð þegar svona er,“ segir Margeir, aðspurður hvort sérsveitin verði með viðveru í bænum. 

Honum er þó ekki kunnugt um hvort vopnuð lögregla verði sýnileg, en að fyrir liggi að fjöldi lögreglumanna verði á svæðinu.

Hér efst í fréttinni má sjá myndskeið af skemmdunum sem urðu á skemmtistaðnum Dubliner eftir að reyksprengju var kastað þangað inn. Skemmtistaðurinn Paloma er á hæðinni fyrir ofan en staðirnir eru í eigu sama aðila.