Saksóknari vill stíga á bensínið en lögmenn á bremsuna

24.11.2022 - 23:08
Mynd með færslu
Sigríður J. Friðjónsdóttir, ríkissaksóknari. Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Ríkissaksaksóknari telur mjög brýnt að frumvarp dómsmálaráðherra um að Endurupptökudómstóll geti vísað málum til Landsréttar fái skjótan framgang á Alþingi. Tveir lögmenn vara hins vegar við því að málið fá einhvers konar flýtimeðferð. Það varði grundvallarmannréttindi og þarfnist gaumgæfilegrar athugunar nefndarinnar.

Þetta kemur fram í umsögnum við frumvarp dómsmálaráðherra sem veitir Endurupptökudómstóli heimild til að vísa máli sem dæmt hefur verið í Hæstarétti til nýrrar meðferðar í Landsrétti. 

Umsögn ríkissaksóknara um frumvarpið er stutt. Hún er samþykk þessum breytingum og tekur að öllu leyti undir röksemdirnar fyrir lagabreytingunum. Hún telur einnig brýnt að frumvarpið fái skjótan framgang á Alþingi.

Gestur Jónsson og Ragnar H. Hall, tveir af reyndustu lögmönnum landsins, eru alfarið ósammála. Þvert á móti vara þeir við því að málið fá einhvers konar flýtimeðferð. 

Gestur og Ragnar bregða sér reyndar í hlutverk blaðamanns í umsögn sinni. Þeir segjast hafa heimildir fyrir því að eftir úrskurð Endurupptökudómstóls í máli Ívars Guðjónssonar, fyrrverandi forstöðumanns eigin fjárfestinga Landsbankans, hafi dómari við Hæstarétt haft samband við stjórnendur í dómsmálaráðuneytinu og óskað eftir fundi með hraði þar sem fara þyrfti yfir nauðsyn lagasetningar til að bregðast við einhvers konar „togstreitu“ sem skapast hefði milli Hæstaréttar og Endurupptökudóms.

Gestur og Ragnar fullyrða í umsögninni að fundurinn hafi verið haldin innan sólarhrings og á þeim fundi hafi frumvarpið orðið til.  Og þetta finnst þeim orka mjög tvímælis;  að dómarar Hæstaréttar skuli telja viðeigandi að þeir segi stjórnvöldum og löggjafarsamkomunni fyrir verkum á þennan hátt. Það sé hlutverk dómstóla að túlka lögin en Alþingis að setja þau.

Gestur og Ragnar spyrja jafnframt af hverju dómstóll eigi að hafa sjálfstæða skoðun á nauðsyn skýrslugjafar fyrir dómi ef sá sem biður um endurupptöku telur enga þörf á að munnlegar skýrslur verði teknar af sér eða vitnum?

Svarið við spurningunni finnst þeim augljóst. Dómarar Hæstaréttar geti ekki fundið sig í því að sýkna þá menn sem rétturinn hafi sakfellt mörgum árum áður. „Það er beinlínis afkáralegt að æðsti dómstóll þjóðarinnar skuli ekki geta fundið sig í því að leiðrétta augljós mistök við samningu dóms.“

Þeir telja rangt að fyrirhuguð lagabreyting sé til hagsbóta fyrir sakborninga sem leiti eftir endurupptöku máls.  Verði frumvarpið samþykkt geti ákæruvaldið komist í þá stöðu að hefja endurtekna sönnunarfærslu í viðkomandi máli, gagngert til að búa svo um hnútana að Hæstiréttur geti endurtekið sakfellinguna. 

Það hafi aldrei verið tilgangurinn með Endurupptökudómstólnum og slík málsmeðferð væri andstæð ákvæðum mannréttindasáttmálans um sanngjarna málsmeðferð.