Reyksprengja sprengd inni á Paloma

Almennar myndir af slökkviliði að störfum í miðbæ Reykjavíkur
 Mynd: Stefán Jón Ingvarsson - Fréttir
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað út um tvö í nótt að skemmtistaðnum Paloma við Naustina í miðbæ Reykjavíkur. Nokkurn reyk lagði þar út um rúðu sem hafði sprungið. Varðstjóri segir að líklega hafi rúðan sprungið innan frá.

Varðstjóri slökkviliðs sagði ekki óvarlegt að fullyrða að um reyksprengju væri að ræða. Þó sé það í höndum lögreglu að rannsaka nákvæmlega hvað gerðist. Enginn eldur var þegar slökkvilið kom á vettvang. 

Í fyrrinótt var reyksprengju kastað inn í hús í Fossvogi og lögregla stöðvaði mann sem bjó sig undir að kasta annarri slíkri í hús í Hafnarfirði. 

Bæði þá og í morgun gat varðstjóri slökkviliðs ekkert sagt um möguleg tengsl þessara atburða við illdeilur undirheimamanna, sem tengjast hnífsstunguárás í Bankastræti fyrir réttri viku. Lögregla staðfesti þó síðar í gær að reyksprengjumál tengdust hnífsstunguárásinni. 

oddurth's picture
Oddur Þórðarson
Fréttastofa RÚV