Óákveðnum fjölgar á kostnað fylgjenda

24.11.2022 - 05:52
epa08210652 European countries' flags and the European Union flag fly in front of the 'Louise Weiss Building', the seat of the European Parliament, in Strasbourg, France, 11 February 2020.  EPA-EFE/PATRICK SEEGER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Stuðningur við inngöngu Íslands í Evrópusambandsins mælist mestur meðal kjósenda Pírata en minnstur hjá kjósendum Miðflokksins. Evrópusinnum hefur hins vegar fækkað hlutfallslega meðal stuðningsfólks Samfylkingarinnar og óákveðnum fjölgar. Þetta kemur fram í nýrri könnun Prósents sem birt er í Fréttablaðinu í dag.

Samkvæmt henni segjast 74 prósent þeirra sem styðja Pírata fylgjandi Evrópusambandsaðild; 68 prósent Viðreisnarkjósenda og 67 prósent Samfylkingarfólks. Í síðustu könnun, sem gerð var í júní, sögðust 84 prósent þeirra sem þá studdu flokkinn fylgjandi aðild.

Í Fréttablaðinu segir Kristrún Frostadóttir, formaður flokksins, mögulegt þessi sveifla skýrist af því að „fólk sem tengir sig við jafnaðarstefnuna í grunninn en hefur varnagla gagnvart Evrópusambandinu sé að koma aftur til Samfylkingarinnar“.

Heldur fleiri kjósenda Sósíalista og örlítið fleiri Vinstri grænir kjósendur eru fylgjandi en andvígir, en talsvert fleiri eru á móti aðild en með í röðum Flokks fólksins. Afgerandi meirihluti Sjálfstæðismanna, Framsóknarfólks og kjósenda Miðflokksins er svo mótfallinn ESB-aðild.

Í heildina segjast tæp 43 prósent fylgjandi aðild, 35 prósent eru andvíg en 22 prósent segjast hvorki mótfallin því ráðslagi né fylgjandi. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV