Kröfu um ógildingu milljóna atkvæða vísað frá

epa10275066 President of Brazil and candidate for re-election Jair Bolsonaro votes in the second round of the presidential elections in Rio de Janeiro, Brazil, 30 October 2022.  EPA-EFE/BRUNA PRADO / POOL
 Mynd: EPA-EFE - AP POOL
Æðsti kosningadómstóll Brasilíu hafnaði í gær kröfu Frjálslynda flokksins, flokks Jairs Bolsonaro, fráfarandi forseta, um að ógilda öll atkvæði sem greidd voru í um 280.000 kosningavélum í seinni umferð forsetakosninganna þar í landi í október. Jafnframt var flokkurinn sektaður fyrir að leggja fram tilhæfulausa kæru gegn betri vitund.

Í kröfu flokksins var tekið fram að ekki væri talið að um kosningasvik væri að ræða, heldur var ógildingarkrafan rökstudd með því að ekki væri hægt að sannreyna uppruna atkvæðanna sem greidd voru í þessum vélum að loknum kosningum og talningu. 

Engin rök voru færð fyrir því, með hvaða hætti þetta ætti að hafa áhrif á niðurstöður kosninganna. Þá var heldur ekki gerð krafa um að ógilda atkvæðin sem greidd voru með þessum sömu vélum í fyrri umferð kosninganna.

Kosningadómstóllinn gaf flokknum sólarhringsfrest til að breyta kæru sinni þannig að hún tæki einnig til fyrri umferðarinnar. Við því var ekki brugðist og því vísaði dómstóllinn kærunni frá án efnislegrar meðferðar. Dómstóllinn hafði áður staðfest úrslit forsetakosninganna og nauman sigur Luiz Inacio Lula da Silva, rétt eins og yfirkjörstjórn landsins, sérstök rannsóknarnefnd varnarmálaráðuneytisins og aðrir þar til bærir aðilar. 

Auk þess að vísa kröfunni frá gerði dómari Frjálslynda flokknum og öðrum aðstandendum kærunnar sekt upp á nær 23 milljónir ríala, jafnvirði tæplega 600 milljóna króna, fyrir að leggja fram tilhæfulausa kæru sem væri til þess fallin að grafa undan lýðræðislegum stofnunum landsins, og það gegn betri vitund.