Kína: Metfjöldi með COVID-19 og vaxandi óánægja

24.11.2022 - 03:53
epa10319874 A mother and child walk along a COVID-19 test site in Beijing, China, 22 November 2022. Beijing has shut shopping malls, parks and museums after recording high number of COVID-19 cases with three deaths recorded from 20 November to 21 November.  EPA-EFE/MARK R. CRISTINO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Fleiri greindust með COVID-19 í Kína síðasta sólarhringinn en nokkru sinni fyrr, samkvæmt opinberum tölum heilbrigðisyfirvalda. Í gær greindust 31.454 með veiruna í Kína, segir í tilkynningu heilbrigðisyfirvalda, þar af voru 27.517 einkennalaus.

Þetta kann að virðast lág tala hjá 1.400 milljóna þjóð en kínversk yfirvöld takast á við útbreiðslu kórónuveirunnar með svokallaðri núllstefnu, sem miðar að því að stöðva útbreiðslu veirunnar hvar sem hún skýtur upp kollinum með ströngum útgöngubönnum, lokunum og ýmsum höftum öðrum.

Gildir þá einu hve mörg tilfellin eru og hvort þau greinast í smáþorpum eða milljónaborgum eins og Sjanghæ, þar sem allt var harðlokað í harntær tvo mánuði í vor.

Vaxandi óánægja

Þessar hörðu, langvarandi og ítrekuðu lokanir eru farnar að reyna nokkuð á þolrif kínversks almennings og óvíða meira en í borginni Sjengshou, þar sem hörð og ofbeldisfull mótmæli brutust út í stórri Iphone-verksmiðju á dögunum, þar sem fjöldi starfsfólks hefur greinst með COVID-19.

Borgaryfirvöld hafa innleitt útgöngubann í nokkrum hverfum í kjölfar mótmælanna og íbúar miðborgarinnar verða að sýna nýtt, neikvætt COVID-próf vilji þeir fara út fyrir miðborgarmörkin. Alls sætir um helmingur borgarbúa, um sex milljónir manna, misströngu útgöngubanni næstu fimm daga hið minnsta.