Innleiða umhverfiseinkunnakerfi fyrir skemmtiferðaskip

24.11.2022 - 10:02
Mynd með færslu
 Mynd: Anna Kristjánsdóttir
Faxaflóahafnir taka nú upp nýtt umhverfiseinkunnakerfi fyrir skemmtiferðaskip sem leggjast að höfnunum. Kerfið tekur sérstaklega á umhverfishegðun skipa á hafnarsvæði og markmiðið með því er að draga úr ávinningi við að koma til hafna Faxaflóahafna með mengandi skip.

Umhverfiseinkunnakerfið Environmental Port Index er að norskri fyrirmynd. Með því hljóta skemmtiferðaskip ívilnanir eða álögur, allt eftir umhverfishegðun þeirra á hafnarsvæði. Faxaflóahafnir eru fyrstu hafnir utan Noregs sem taka upp EPI einkunnakerfið og tengja það við gjaldskrá sína fyrir 2023. 

Við innleiðingu var stuðst við fyrirkomulag hjá höfninni í Stavanger, en með vægari álögur, þar sem Faxaflóahafnir eru ekki enn komnar með landtengingar fyrir stærri skemmtiferðaskip.

Kerfið gerir höfnum kleift að skilgreina umhverfisspor skemmtiferðaskipa meðan á viðkomu þeirra stendur og með innleiðingu þess verður komið á fjárhagslegu hvatakerfi til umhverfisvænni og sjálfbærari rekstrar skipanna. Þá ber skemmtiferðaskipunum að skila inn gögnum til Faxaflóahafna svo meta megi umhverfisframmistöðu þeirra í höfn, ekki síðar en 72 klukkustundum fyrir brottför. Út frá þessum gögnum fær hvert og eitt skip EPI einkunn milli 0 (verst) og 100 (best). 

„Innleiðing á umhverfiseinkunnarkerfi EPI er í samræmi við stefnuáherslu Faxaflóahafna með grænar hafnir og forystu í loftslags- og umhverfismálum í hafnsækinni starfsemi. Þar hefur verið mikilvægt að horfa til reynslu Norðmanna og ekki síst hefur EPI sýnt fram á mælanlegan árangur í að minnka umhverfisáhrif skemmtiferðaskipa í norskum höfnum“ segir Sigurður Jökull Ólafsson, markaðstjóri Faxaflóahafna.