Ímyndar sér Jónas Hallgrímsson með Macbook á barnum

Mynd: RÚV / RÚV

Ímyndar sér Jónas Hallgrímsson með Macbook á barnum

24.11.2022 - 11:33

Höfundar

„Hann væri eflaust líka pistlahöfundur á Rás 1,“ segir Elín Elísabet Einarsdóttir um þjóðskáldið. Hún myndskreytti bókina Á sporbaug, eftir hana sjálfa og Önnu Sigríði Þráinsdóttur, sem fjallar um nýyrði Jónasar Hallgrímssonar.

Jónasi Hallgrímssyni má auðveldlega lýsa sem helsta nýyrðasmið þjóðarinnar. Hönnun orða hans, hljómur og lögun voru svo vel heppnuð að þau festu mörg hver kyrfilega rætur í málinu.

Í bókinni Á sporbaug: nýyrði Jónasar Hallgrímssonar, sem nýlega kom út, eru nýyrði Jónasar samankomin í myndskreyttri bók. Anna Sigríður Þráinsdóttir skrifar um orðin og Elín Elísabet Einarsdóttir segir sögu Jónasar í myndum. Egill Helgason ræddi við Önnu Sigríði og Elínu um bókina og dálæti þeirra á skáldinu sem nær mislangt aftur.

Tók skáldið í sátt eftir að uppgötva nýyrðin

Anna Sigríður lýsir því í formála bókarinnar að hún hafi sjálf haft blendnar tilfinningar til Jónasar framan af. „Það má kannski segja það,“ viðurkennir hún. „Ég áttaði mig ekkert á því fyrr en seinna að ég væri ekkert sérstaklega hrifin af þessum ættjarðarljóðum sem við vorum látin læra í skóla. Ég verð að segja að mér fannst látið svolítið með hann.“

Hún gekk svo langt að fara í hálfgerða unglingauppreisn gegn skáldskap hans. Það átti þó eftir að breytast. „Svo fór ég nú að taka hann í sátt. Sérstaklega þegar ég komst í kynni við nýyrðin hans.“

Heimir Pálsson, vinnufélagi og vinur Önnu, vakti fyrst athygli hennar á nýyrðunum. Þá kviknaði hjá henni brennandi áhugi. „Við vorum að vinna saman í Kennaraháskólanum og hann sagði við mig að það þyrfti nú einhver að gera eitthvað við þessi nýyrði hans Jónasar,“ rifjar Anna upp. „Þetta var nú áður en tíu þúsund króna seðillinn kom, þá var nú eitthvað gert með nýyrðin hans, en það var ekki mikið gert við þau í skólakerfinu.“

Okkur finnst eins og orðin hafi alltaf verið til

Orð hans birtast mörg í ljóðmælum en einnig í þýðingum hans og ritum um náttúrufræði og stjörnufræði, þar sem orðaforðinn yfir fyrirbærin var oft ekki til staðar svo vöntunin hvatti skáldið til sköpunar. Þá tók Jónas sig til og smíðaði viðeigandi orð. „Hann hafði svona hugsjón að koma Íslendingum á bragðið með vísindi og fræði, og færa okkur kannski aðeins til nútímans. Leiða okkur að því sem var að gerast úti í heimi.“

Hann þýddi þykkan doðrant sem nefnist Stjörnufræði - létt og handa alþýðu og þar koma fram mörg nýyrði sem nú eru í fullri notkun. „Þetta eru orð sem við gerum okkur eiginlega enga grein fyrir að einhver hafi sest niður og búið til. Okkur finnst eins og þau hafi bara alltaf verið til.“

Nýyrðasmíð sem íþrótt

Þessara orða á meðal er auðvitað titill bókarinnar sporbaugur en líka orðin þyngdarafl, sól- og tunglmyrkvi svo eitthvað sé nefnt. Frá honum komu líka mörg orð í dýrafræðinni en hann smíðaði orðin spendýr, skjaldböku og mörgæs.

Jónas lést aðeins 37 ára gamall en afkastaði ótrúlega miklu á stuttri ævi. Anna segir ljóst að hann hafi æft sig mikið eftir að íslenskugrunnurinn var lagður í latínuskólanum hjá Sveinbirni Egilssyni og öðrum kennurum sem lögðu áherslu á orðmyndun á íslensku. „Hann hefur greinilega gripið þetta og gert nánast að íþrótt.“

Las og lærði ljóðin á klósettinu

Elín Elísabet hefur lengi haft tengingu við Jónas enda las hún ljóð hans mikið sem barn. Ljóð voru enda mikið í kringum hana, ekki síst þegar hún sat á snyrtingunni. „Mamma mín var svo sniðug að hún setti alltaf ljóð á vegginn fyrir framan klósettið hjá okkur í Borgarnesi þannig að maður lærði þau utan að. Maður sat þar alltaf af og til,“ segir Elín glettin.

Henni fannst hún því vel eiga heima í hlutverki myndskreytis í bókinni og notaði teikningar til að kynnast skáldinu betur. „Ég fór að stúdera hvernig honum er lýst því það er bara til ein teikning af honum,“ segir Elín.

Jónasi Hallgrímssyni er lýst sem meðalmanni á hæð, þrekvöxnum, hálsstuttum og réttnefjuðum. „Ég stúderaði þetta og teiknaði hann svo bara í allt sumar. Hann var í öllum skissubókum, á spássíum og servíettum. Þannig næ ég að kynnast honum sem persónu.“

Væri eflaust pistlahöfundur á Rás 1

Nú finnst Elínu sem þau þekkist því hann birtist henni ljóslifandi. „Ég sé hann alveg fyrir mér á Kaffibarnum, að fá sér kaffi á morgnana á Skólavörðustíg og með MacBook á öllum kaffihúsum skrifandi fræðigreinar og ljóð. Hann væri eflaust líka pistlahöfundur á Rás 1.“

Þó bókin sé myndskreytt er hún ekki einungis ætluð börnum heldur öllum aldurshópum. „Ég held að börn geti haft mjög gaman af því að fletta í gegn, skoða myndirnar og kynnast Jónasi betur en svo getur maður lesið textann sama á hvaða aldri maður er,“ segir Elín. „Ég held að það sé mikilvægt að við munum það sem þjóð og samfélag að teikningar eru ekki bara fyrir börn.“

Kiljan er aftur á dagskrá í kvöld klukkan 20:05.