Fimm konumorð á hverri klukkustund, allan ársins hring

epa10314929 Women rights activists led by the feminist movement 'Nous Toutes' (All of Us) hold placards to support Iranian women with the slogan ‘Jin Jiyan Azadi’ (Woman, Life, Freedom) as they march during a rally against femicide, gender-based violence and sexual harassment against women, in Paris, France, 19 November 2022.  EPA-EFE/CHRISTOPHE PETIT TESSON
Femínistar í París mótmæla konumorðum, kynbundnu ofbeldi og kynferðisofbeldi um leið og þær lýsa stuðningi við konur í Íran Mynd: EPA-EFE - EPA
Árið 2021 féllu að meðaltali rúmlega níu konur og stúlkur fyrir morðingja hendi á hverri einustu klukkustund, þar af rúmlega fimm af mönnum sem tengdust þeim fjölskylduböndum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna um konumorð.

Í skýrslunni, sem birt var í gær, kemur fram að um 81.100 konur og stúlkur hafi verið myrtar í fyrra, svo staðfest sé. Þar af voru um 45.000 myrtar af eiginmanni sínum, sambýlismanni, unnusta eða öðrum körlum sem tengdust þeim fjölskylduböndum.

Fulltrúar UN Women og Fíkniefna- og glæpastofnunar Sameinuðu þjóðanna segja að þótt þetta séu „ískyggilega háar tölur“ þá séu konumorð að líkindum mun fleiri, það skorti einfaldlega áreiðanleg gögn til að staðfesta það.

Myrtar fyrir að vera konur

Með hugtakinu konumorð er vísað til kynbundins ofbeldis og felur það í sér að hinar myrtu hafi fyrst og fremst verið drepnar vegna kynferðis síns. Samkvæmt skýrslunni voru konumorð sem framin voru af mökum eða öðrum fjölskyldumeðlimum flest í Asíu í fyrra, eða 17.800 talsins.

Hlutfallslega voru þó flestar konur í Afríku myrtar af maka eða ættingja, eða 2,5 af hverjum 100.000 konum. Sambærilegar tölur fyrir Norður- og Suður Ameríku eru 1,4 af hverjum 100.000, 1,2 í Eyjaálfu, 0,8 í Asíu og 0,6 í Evrópu.

Skýrslan leiðir einnig í ljós að konumorðum fjölgaði umtalsvert í Norður Ameríku og Evrópu vestan- og sunnanverðri í heimsfaraldri kórónuveirunnar. Nánari skoðun á gögnum þar að lútandi leiðir í ljós að þá aukningu má einkum rekja til annarra fjölskyldumeðlima en maka.

Í  kynningu á skýrslunni á vef UN Women segir að ofbeldi á konum og stúlkum sé útbreiddasta mannréttindabrotið með rætur í kynjamisrétti og ójöfnuði, valdaójafnvægi og skaðlegum samfélagsviðmiðum, og að kynbundið dráp á konum og stúlkum sé hrottalegasta og öfgafyllsta birtingarmynd slíks ofbeldis.