„Ekki vera löt — allir í Hvöt“

Mynd: Mummi Lú / RÚV

„Ekki vera löt — allir í Hvöt“

24.11.2022 - 12:10

Höfundar

HM karla í fótbolta hófst á dögunum og er að þessu sinni haldið í Katar. Þó margir séu áhugasamir er heimur fótboltans að einhverra mati óaðgengilegur og óspennandi. Viktoría Blöndal, pistlahöfundur Lestarinnar, fjallar um íþróttina á mannlegan hátt.

Viktoría Blöndal skrifar:

Ég er alin upp við að fótbolti sé alls staðar. Hann var spilaður, það var talað um hann, rifist um hann. Fólk elskar að hata og hatar að elska hann.

Ég spilaði með Hvöt sem barn og unglingur þar sem slagorðið var „Ekki vera löt - allir í Hvöt,“ sem er svo geggjað dæmi en á sama tíma algjört rugl. Og samkvæmt KSÍ er ég núna leikmaður. Leikmannaglugginn minn hefur reyndar ekki opnast í einhver ár en hver veit, það gæti komið að því.

Ég hef farið í jarðarför þar sem elskulegasti frændi minn kær, Kiddi Blöndal, var jarðaður í Liverpool-búning með Mo Salah aftan á og You never walk alone var spilað þegar við gengum með kistuna út. Þegar Birna amma, amma mannsins míns var jörðuð þá söng kirkjukór Vopnafjarðarkirkju Glory glory þegar gestir voru að koma sér fyrir í kirkjunni.

Þessir pistlar mínir fjalla semsagt um fótbolta og fyrsta spjallið er við Theodór Inga Ólafsson- Tedda - Teddi le big. Hann er stuðningsmaður en myndi samt ekki deyja fyrir klúbbinn.

Teddi hafði nefnilega engan sérstakan áhuga á fótbolta þegar hann var að alast upp en eldri bróðir hans hélt með Liverpool og systkini mömmu hans með Manchester United.

Hann segist ekkert vita um fótbolta og ekkert kunna heldur. „Ég mætti á örfáar fótboltaæfingar, gat ekki neitt en nennti þessu ekkert, mjög týpískt fyrir mig. En um 18 ára aldur þá spilaði ég mikið Championship Manager, sem heitir í dag Football Manger, og vinir mínir voru mikið í því að horfa á fótbolta. Árið 1994-1995 byrja ég að halda með Liverpool. Bróðir minn hélt með Liverpool þegar við vorum yngri og mér fannst það bara eðlilegt að halda með Liverpool og helmingurinn af vinum mínum líka þannig," rifjar hann upp.

„Ég varð bara svona Liverpool-stuðningsmaður. Það hefur svo bara aukist með árunum, maður horfði á einn og einn leik en hafði aldrei dottið í hug að fara út á leik og maður átti ekki treyjur eða neitt. En með árunum, þegar maður nálgast miðaldra þá er ég farinn að kaupa treyjur og svona.”

Núorðið horfir Teddi á alla Liverpool leiki sem hann kemst í og viðurkennir aðskapið hafi batnað með árum en símar hafi alveg fengið að fljúga eftir tap Liverpool.

„Einn fyrsti leikurinn sem ég horfði á var í Sjallanum á Akureyri árið 1995 og þetta er einn frægasti leikur ensku úrvalsdeildarinnar. Liverpool spilaði gegn Newcastle og það endar með 4-3 fyrir Liverpool og þeir skoruðu svo í uppbótartíma. Það trylltist allt, stólar og borð flugu og gleði, þetta var mjög skemmtilegt.” Og þrjátíu árum seinna man hann þetta eins og þetta hafi gerst í gær.

Teddi segist ekki vera alveg galinn stuðningsmaður Liverpool og að lagið You never walk alone hafi ekki verið spilað þegar hann til dæmis gifti sig. Það verði líklega ekki spilað heldur þegar hann verði borinn til grafar, en hugsanlega verði karíókí-útgáfa af því fyrir vini og vandamenn til að syngja með verði spilað. Helst þá fyrir vini hans sem eru stuðningsmenn Manchester United.