Dró fyrirvinnu fyrir dóm en fékk málskostnað í hausinn

24.11.2022 - 23:38
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í gær konu af kröfu fyrrverandi sambýlismanns hennar sem taldi sig hafa lánað henni 2,6 milljónir og vildi fá endurgreitt. Konan sagðist hafa verið fyrirvinnan á meðan sambandi þeirra stóð enda hefði hann verið meira og minna atvinnulaus og tekjulítill.

Parið kynntist fyrir sex árum og fór að búa saman ári seinna. Fyrstu bjuggu þau heima hjá foreldrum konunnar en síðar í íbúð móður mannsins sem þau greiddu leigu.

Þau reyndu að kaupa sér fasteign árið 2019 og það er óumdeilt að maðurinn millifærði yfir á reikning konunnar 2,8 milljónir og að tilgangurinn hafi verið að greiða niður skuldir konunnar.

Maðurinn taldi þetta hafa verið lán sem henni bæri að endurgreiða en konan sagði fjármunina hafa átt að auðvelda þeim að komast í gegnum greiðslumat og jafna fjárhagslega stöðu þeirra eftir að hún hafði staðið straum af sameiginlegum útgjöldum þeirra.  

Í vörn sinni fyrir dómi sagðist konan hafa millifært yfir á manninn 2,5 milljónir á sambúðartíma þeirra og látið hann hafa hálfa milljón í peningum.  Þá væru ótalin ýmis önnur útgjöld sem hún hefði staðið straum af, meðal annars fartölvu mannsins og tölvuleikjaborð sem hann hefði pantað sér á raðgreiðslum á kortið hennar.   Svo væri hann líka enn þá með sófa sem hún hefði greitt fyrir. 

Þá hefði hún greitt allan kostnað við síma og internet og séð um öll útgjöld vegna ferðalaga. Sennilega hefði hún varið fimm til sex milljónum í matarinnkaup og annan rekstur heimilis, samhliða því að millifæra reglulega fjármuni yfir á manninn. Hún skuldaði honum því ekki neitt.

Héraðsdómur bendir á í niðurstöðu sinni að hvorki liggi fyrir lánssamningur né önnur sambærileg gögn til stuðnings kröfu mannsins. Vitnisburður móður mannsins fyrir dómi þótti einnig hafa takmarkað sönnunargildi. 

Maðurinn lagði fram 45 ótölusettar blaðsíður af samskiptum hans og konunnar á Messenger og 25 ótölusettar blaðsíður af samskiptum þeirra í gegnum smáskilaboð. Konan sagði lítið að marka samskiptin á Messenger. Hann hefði komist í aðgang hennar sem sæist meðal annars þegar hann kvartaði við Heimilistæki eftir kaup á ísskáp og þvottavél. Þá hefði hann notað  aðgang hennar en skrifað sitt nafn undir kvörtunina. 

Fyrrnefndu gögnin taldi héraðsdómur að gæfu ekki heildarmynd af samskiptum þeirra. Það sæist til að mynda að leitað hefði verið að efnisorðinu „skuld“ og þau bæru þess merki að hafa verið handvalin. Um þau síðarnefndu sagði dómurinn að þau væru því marki brennd að maðurinn fullyrti einhliða að hún skuldaði sé pening en hún ýmist svaraði honum ekki, svaraði öðru eða færi fram á gögn um meinta skuld.

Dómurinn taldi að manninum hefði ekki tekist að sanna að hann hefði lánað konunni þessa peninga og að hún væri skuldbundin til að endurgreiða honum. Var hún sýknuð og manninum gert að greiða henni málskostnað uppá tæpar 1,3 milljónir króna.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV