Áfram í gæsluvarðhaldi vegna hryðjuverkarannsóknar

Lögreglumenn leiða mennina tvo á milli sín, þeir eru báðir í handjárnum og fela andlitin.
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Héraðsdómur Reykjavíkur féllst í dag á kröfu héraðssaksóknara um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir mönnunum tveimur sem grunaðir eru um skipulagningu hryðjuverks. Þetta staðfestir Karl Ingi Vilbergsson, saksóknari hjá héraðssaksóknara, í samtali við fréttastofu.

Mennirnir tveir voru handteknir í umfangsmiklum aðgerðum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, héraðssaksóknara og ríkislögreglustjóra um miðjan september. 

Fjölmiðlar hafa greint frá því að mennirnir hafi rætt sín á milli í lokuðu spjalli á samfélagsmiðlinum Signal um að taka þjóðþekkt fólk af lífi.  

Þetta voru meðal annars Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins og Píratarnir Björn Leví Gunnarsson, Helgi Hrafn Gunnarsson og Smári McCarthy. 

Í gærkvöld greindi fréttastofu frá því að mennirnir hefðu einnig rætt um morð á Guðlaugi Þór Þórðarsyni, orkumálaráðherra. Það virtist þó vera á þeim misskilningi byggt að Guðlaugur Þór væri enn utanríkisráðherra.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV