Á þing fyrir Alaska, fyrst kvenna og frumbyggja

U.S. House candidate Democrat Mary Peltola answers questions from a reporter prior to a forum for U.S. House candidates at the Alaska Oil and Gas Association annual conference at the Dena'ina Convention Center in Anchorage, Alaska, on Wednesday, Aug. 31, 2022. Peltola won the special election for Alaska’s only U.S. House seat on Wednesday, besting a field that included Republican Sarah Palin, who was seeking a political comeback in the state where she was once governor. (Marc Lester/Anchorage Daily News via AP)
 Mynd: AP - RÚV
Demókratinn Mary Peltola verður eini fulltrúi Alaskaríkis í fulltrúadeild Bandaríkjaþings á næsta kjörtímabili eftir að hún bar sigurorð af Repúblikönunum Söruh Palin, fyrrverandi ríkisstjóra Alaska, og Nick Begich III.

Tímamótaþingkona

Peltola náði kjöri í fulltrúadeildina í aukakosningum í ágúst í sumar, í kjölfar andláts Repúblikanans Dons Young, sem verið hafði þingmaður Alaska í fulltrúadeildinni í 49 ár. Þar atti hún líka kappi við Palin og hafði sigur. 

Kjör Peltola í sumar og endurkjör nú tryggja henni traustan sess í bandarískri stjórnmálasögu, því hún er í senn fyrsta konan og fyrsti frumbygginn sem situr í fulltrúadeild Bandaríkjaþings fyrir hönd Alaska og jafnframt fyrsti meðlimur rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar til að eiga þar sæti.

Kosningaaðferð tafði talningu

Talning atkvæða tók öllu lengri tíma í Alaska en víðast annars staðar vegna nýs kosningakerfis sem þar var innleitt árið 2020 og er svokölluð forgangskosning. Kjósendur merkja því við fleiri en einn frambjóðanda frá fleiri en einum flokki eða hreyfingu og forgangsraða þeim eftir eigin höfði. Fái enginn hreinan meirihluta í fyrsta sætið þarf að telja áfram atkvæði sem frambjóðendur fá í annað sæti og svo koll af kolli. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV