12 sporin „gjörsamlega breyttu mér sem manneskju“

Mynd: Reykvélin / Forlagið

12 sporin „gjörsamlega breyttu mér sem manneskju“

24.11.2022 - 12:45

Höfundar

Handritshöfundurinn Jón Atli Jónasson segir að þegar hann hafi verið búinn að þiggja alla þá hjálp sem 12 sporin höfðu upp á að bjóða hafi það bjargað honum að vinna með öðrum, hella upp á kaffi og raða stólum. „Það sem ég lifi fyrir er að sjá hvernig ljósið kviknar hjá öðrum,“ segir hann.

Handritshöfundurinn Jón Atli Jónasson hefur skrifað bækur, leikrit og handrit að sjónvarpsseríum og nú síðast sendi hann frá sér spennusöguna Brotin. Jón Atli er sonur alkóhólista og segir það hafa verið alveg skýrt frá upphafi að hann hefði sjúkdóminn einnig í blóðinu. Hann notar því 12 sporin á hverjum einasta degi. „Það er svona grunnurinn að öllu saman, spilar gríðarlega rullu í mínu lífi,“ segir Jón Atli í samtali við Sigurlaugu Margréti Jónasdóttur í Segðu mér á Rás 1. „Þegar maður er einu sinni kominn á þá braut þá reynir maður að halda sig á henni bara.“  

Sé maður heppinn takist manni að breyta viðhorfi sínu til lífsins með því að leggja inn vinnuna og sinna 12 spora kerfinu. „Því ég vakna sannarlega ekki æðrulaus og í sátt við guð og menn, ég þarf að gera ýmislegt til að það megi gerast,“ segir hann. „Þau björguðu ekki lífi mínu heldur gjörsamlega breyttu mér sem manneskju.“  

Ekki hafi vantað upp á fúsleikann að þiggja alla þá þjónustu sem samtökin buðu upp á en að endingu kom sá tími þar sem Jón Atli var búinn að þiggja alla þá hjálp sem í boði var. „Þú verður einhvern veginn að reyna að snúa þessu við. Hjá mér var það bara að fara að starfa og vinna með öðrum, hella upp á kaffi og raða stólum og vaska upp, allt þetta. Þetta einhvern veginn bjargaði mér.“  

„Er ekki á góðum stað ef ég verð mjög sjálfsupptekinn“ 

Þrátt fyrir að hafa verið lengi að vinna sig í gegnum þá kvilla sem fylgdu því að alast upp með alkóhólista fyrir foreldra segist Jón Atli ekki finna sig knúinn til að dvelja lengi við þær minningar. „Þegar maður lagar það hef ég fundið í mínu tilviki að það er eitthvað sem ég þarf ekki endalaust að vera að,“ segir hann. „Ekki það að ég vilji það ekki en ég þarf meira að hugsa um hvar ég er, það er svona mitt mesta eitur að ég finn að ég er ekki á góðum stað ef ég verð mjög sjálfsupptekinn.“  

Að mati Jóns Atla er oft og tíðum of mikil áhersla lögð á sjálfshyggjuna þegar fólk fer út fyrir hið hefðbundna, í leit að hamingju eða sjálfshjálp. „Ég á þetta skilið, þetta er best fyrir mig og allt þetta. Það er dálítið verið að ávarpa okkur sem neytendur þar,“ segir hann. „Allt sem ég geri í þessu, þegar það snýst hvað minnst um mig, þeim mun betur gengur mér.“ 

Sér hlutina í nýju ljósi sem fullorðinn maður  

Þrátt fyrir erfið uppvaxtarár og flókið samband við föður sinn segist Jón Atli skilja það nú hvað hann hafi verið veikur. Hann segist aldrei gleyma þegar hann heimsótti föður sinn á meðferðarstofnun þar sem hann hafði verið lagður inn. Þar hafi hann staðið og virt föður sinn fyrir sér og hugsað: „Já, þetta vefst fyrir honum, hann ræður ekki við þetta,“ og það hafi honum þótt áhugavert. „En svo þegar maður verður sjálfur að manni og þetta þetta, þá er perspektív manns allt allt öðruvísi,“ segir hann. „Og það sem ég lifi fyrir er að sjá hvernig ljósið kviknar hjá öðrum, það er mesta kikkið. Því í AA erum við síðasta húsið í götunni, það er bara þannig. Ég hef séð þegar menn ná ekki fótfestu þar, ná ekki að hringja á bjölluna, það er bara hræðilegt.“ 

„Sem betur fer varð ég ekki leikari“ 

Jón Atli hóf rithöfundarferil sinn á því að skrifa smásagnasafn fyrir Forlagið árið 2001 og á svipuðum tíma var verk hans valið í leikritasamkeppni Borgarleikhússins til sýningar. „Fyrir jól frumsýni ég verk þar og eftir áramót með Vesturporti, sem voru nýkomin frá London eftir Rómeó og Júlíu ævintýrið,“ segir hann. „Það var rosalega gaman. Síðan hef ég verið í því bara, rosa mikið í leikhúsi og handritsgerð fyrir kvikmyndir.“ 

„Um þetta leyti var ég valinn inn í alþjóðlegu residensíuna í Royal Court leikhúsinu,“ segir Jón Atli. Þar er unnið með fimm til tíu höfundum í einu og er Jón Atli enn eini Norðurlandabúinn sem hefur komist þar inn. „Það var alveg geggjað að vera þar,“ segir hann. Þau hafi hitt rjómann af leikskáldum og leikstjórum Bretlands og eytt með þeim nokkrum dögum í senn að spjalla um leikhús og leikritun. 

Að sögn hefur Jón Atli alltaf verið mjög upptekinn af leikhúsi og fannst hann skilja það á djúpstæðan hátt. Lengi vel taldi hann draum sinn vera að gerast leikari en fylgdi honum aldrei eftir og sér ekki eftir því. „Sem betur fer varð ég ekki leikari, Jesús minn. Því það er alveg sérstök manngerð, ég hef unnið svo mikið með leikurum, ég skil alveg hvaða dýnamík er í gangi þar. Það er bara allt önnur dýrategund.“  

Misskilningur að allir Norðurlandabúar séu góðir í glæpasögum 

Þau hjónin ákváðu að flytja sig um set og fara til Berlínar. Kona hans, Urður Hákonardóttir, er tónlistarkona og hentaði því vel að fara til Berlínar sem er eins konar suðupottur fyrir bæði músík og leikhús. „Það var einhver svona fílingur, þegar við fluttum, þá var enn þá svolítið pönk í borginni,“ segir Jón Atli þó svo að nú séu örlítið breyttari tímar. Hann rifjar upp sinn fyrsta dag í borginni þegar honum var litið út um gluggann og sá lögregluna stöðva ökumann fyrir of hraðan akstur. „Löggan er að gefa út sektina og kveikir sér í sígarettu, þetta myndirðu aldrei sjá í Skandinavíu eða á Íslandi,“ segir hann. „Ég hugsaði: Vá, þeir eru svona hressir.“ 

Þegar hann flutti út hafði Jón Atli enga vinnu aðra en að skrifa íslensk leikrit. Hægt og rólega fékk hann þó fleiri og fleiri verkefni í þeim geira sem hann starfar nú mest við, sem er að þróa sjónvarpsefni í Evrópu. Glæpaseríur eru gríðarlega vinsælar og telur Jón Atli að um misskilning sé að ræða þegar kemur að Norðurlandabúum og glæpaefni. „Þeir halda að við séum með eitthvað svona nordic noir gen í okkur, ef þú ert Norðurlandabúi þá virðistu oft eiga greiðari aðgang inn í eitthvað svona glæpastöff sem er mjög fyndið. Ég hef það alls ekki,“ segir hann. „Þegar ég byrjaði vissi ég ekkert um þetta en ég hafði önnur verkfæri úr leikhúsinu og svo kemst maður upp á lagið með þetta.“ 

„Draumurinn er bara að vera hér í núinu“ 

Nú eru þau Jón Atli og fjölskylda komin aftur heim til Íslands og má sjá þau á vappi um Laugaveginn með bónuspokann. „Ég kom heim í covid sem var dásamlegt,“ segir hann. „Það var allt lokað í Evrópu en hér voru bara allir úti að borða, í sundi og að flippa út.“ Hann er þó ekkert að flýta sér að fara aftur út nú þegar ástandið hefur skánað töluvert. „Draumurinn er bara að vera hér í núinu, í núvitund. Þangað til annað kemur í ljós.“ 

Milli sín eiga Jón Atli og Urður þrjár dætur, allt frá upp í miðjum tvítugsaldri og niður í þriggja ára telpu. Jón Atli eignaðist sína fyrstu dóttur 25 ára gamall og segist alls ekki hafa verið tilbúinn að verða faðir á þeim tímapunkti. Nú, fimmtugur með þriggja ára dóttur segist hann nálgast foreldrahlutverkið á allt annan hátt. „Ég vona að þær njóti allar, á einhvern hátt, góðs af því,“ segir hann. „Það er mjög gaman að því, þetta er skemmtilegar stúlkur allar.“ 

Fannst vanta trúverðuga glæpasögu 

Út er komin ný spennusaga eftir Jón Atla sem ber titilinn Brotin. Eftir að hafa unnið að glæpaseríum undanfarin ár fannst honum vel hægt að bæta við þá flóru. „Þetta er það sem ég les að miklu leyti, ég sit ekkert heima og les Dostojevski. Mér fannst vanta dálítið bók sem gerist í samfélagi og kannski undirheimum sérstaklega sem eru trúverðugir,“ segir hann. „Glæpasagan er svo brilljant tæki til að fjalla um samtímann því þú þarft að banka upp á hjá alls kyns stöðum. Mér fannst það vera eitthvað sem mig langaði til að gera.“ 

Einnig segist hann hafa verið orðinn þreyttur á að þróa sjónvarpsefni sem fór oft ekki lengra. „Oft hefur maður verið að vinna í einhverju og hugsað, já þetta er frábært, en á endanum þá kemur bara: Nei þessi leikkona vill frekar gera eitthvað fyndið. Og þá er bara hætt við allt og sex mánuðir út um gluggann.“ Það sé eðli málsins samkvæmt þegar kemur að þróun og að sögn Jóns Atla kemst um það bil eitt prósent af því sem þróað er og skrifað á koppinn. „Mér fannst þetta bara þess virði að kýla á. Það er ótrúlega þakklátt að gera eitthvað og svo bara kemur það út og svo er það bara búið.“ 

Sorgleg, grimm, spennandi og fyndin  

Honum þyki hrikalega skemmtilegt að sjá bókina á búðarborðum, sér í lagi vegna þess hve mikið basl hafi verið að gera kápuna. „Ég er rosalega ánægður með þessa bók, ekkert endilega vegna þess að hún sé frábærlega skrifuð eða fullkomin. En það slær eitthvað svona hjarta í henni sem er rosalega jákvætt, hún er lifandi,“ segir hann. „Ég vona að hún sé sorgleg og grimm og spennandi og fyndin. En líka ófullkomin sem mér finnst líka þurfa að vera.“ 

Bókin hefst á því að unglingsstúlka hverfur í skólaferðalagi á Þingvöllum en þar sem allt tiltækt lögreglulið er upptekið við rassíu í undirheimunum kemur það í hlut lögreglukonunnar Dóru að rannsaka málið. Dóra glímir við heilaskaða eftir voðaskot og fær því sér til aðstoðar Rado, son serbneskra flóttamanna sem hefur unnið sig upp í lögreglunni en er í basli vegna þess að tengdafaðir hans er í pólsku glæpagengi. „Sagan fjallar mikið um, hef ég sagt, að hvernig nýfrjálshyggjan hefur skotið rótum í undirheimunum,“ segir Jón Atli. „Þessir karakterar eru skemmtilegir, þeir eru þrívíðir og ég kann að skrifa díalóg, sem skiptir máli.“ 

Snýst um gleðina að skapa  

Jón Atli hefur fengið gríðarlega mikið af skemmtilegum tækifærum í gegnum tíðina og segist þakklátur fyrir það. Það geti verið bölvuð barátta að koma sér og verkefnum á  framfæri en viðhorfið skipti öllu máli. „Gleðin í því að skapa og deila með öðrum, út á það gengur þetta,“ segir hann. „Það getur gerst að maður fari út af sporinu og fer að hugsa á einhverjum kaldari career-forsendum, en ég geri það ekki. Ég er einhvern veginn að mestu leyti, 90% knúinn áfram af gleðinni að því að skapa.“ Mörg verkefni eru í bígerð hjá Jóni Atla, hann er spenntur fyrir því sem koma skal og aldrei að vita nema hann taki upp á því að skrifa aðra spennusögu. 

Sigurlaug Margrét Jónasóttir ræddi við Jón Atla Jónasson í Segðu mér á Rás 1. Hægt er að hlýða á viðtalið í heild sinni hér í spilara RÚV.