Víða viðbrögð vegna átaka sem hafa verið boðuð

23.11.2022 - 19:23
Mynd: Pétur Magnússon/RÚV / Pétur Magnússon/RÚV
Landspítali íhugar að virkja viðbragðsáætlun, ef átök brjótast út í miðborginni um helgina. Bandaríska sendiráðið hefur varað Bandaríkjamenn hér við yfirvofandi hættuástandi. Leki á gögnum úr rannsókn málsins gæti skaðað hana.

28 hafa verið handtekin vegna málsins, þar af einn vegna gruns um hótanir og skemmdarverk. Lögreglan kannar trúverðugleika skilaboða sem deilt hefur á samfélagsmiðlum þar sem átök eru boðuð í miðborg Reykjavíkur um helgina. 

„Það er eitthvað í gangi og við gerum okkur fulla grein fyrir því,“ segir Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu.

„Þarna eru einhverjir hópar í átökum, hvar þeir lenda í átökum - hvort það verður í miðbænum eða einhversstaðar annars staðar - það getum við ekki sagt til um á þessari stundu.“

Lögregla  verður með aukinn viðbúnað í miðborginni um helgina og einnig veitingamenn. Bandaríska sendiráðið varaði í dag landa sína við að fara í miðborgina um helgina.

Sjá einnig: Viðbúnaður í miðborginni vegna hótana og árása

Eru á varðbergi

Framkvæmdastjóri meðferðarsviðs Landspítala segir að stjórnendur spítalans séu á varðbergi vegna stöðunnar. Undanfarna daga hafi verið farið yfir hvað gera þurfi, ef komi til átaka um helgina og virkja þurfi viðbragðsáætlun. Þetta sé gert í samráði við lögreglu.

Margeir segir þetta ekki til marks um að lögregla hafi misst tökin á málinu. „Við höfum séð stíganda í þessu, séð stíganda í ofbeldi og í hópamyndun. Við höfum verið að benda á þetta og núna er bara komið að því að þetta er veruleikinn. Við teljum okkur alveg vera í stakk búna til að takast á við þetta, eins og þetta er.“

Í gær birtust myndbönd úr öryggismyndavélum Bankastræti Club sem sýna hnífaárásina. Héraðssaksóknari hefur málið til rannsóknar og svo virðist sem myndbandið hafi verið tekið upp á síma af tölvuskjá og þar má sjá merki LÖKE sem er málaskrárkerfi lögreglu. Það leiðir líkum að að lekinn hafi komið frá lögreglu.

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu segir að margir innan lögreglunnar hafi haft aðgang að myndböndunum. „Lunginn af starfsfólki hér hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hafði aðgang að þessu vegna þess að við vorum að reyna að endurþekkja þá sem eru á myndbandinu,“ segir Grímur.  Hafa núna færri aðgang að gögnum þessa máls vegna þessa leka? „Já.“

Hann segir að þetta geti haft veruleg áhrif á vinnu lögreglu. „Það, að deila rannsóknargögnum með óviðkomandi, getur haft mjög alvarleg áhrif á framvindu rannsóknar. Og þess vegna lítum við þetta mjög alvarlegum augum.“