„Valdinu þar hefur greinilega oft verið misbeitt“

Mynd: RÚV / RÚV

„Valdinu þar hefur greinilega oft verið misbeitt“

23.11.2022 - 13:14

Höfundar

„Kannski má líta á misbeitinguna sem átti sér stað í þessu húsi sem eins konar upphafsreit,“ segir Haukur Már Helgason rithöfundur um Stjórnarráðshúsið sem var reist sem fyrsta fangelsi Íslands. „Þetta er fyrsta stofnun sem er sett á laggirnar með þar til gerðri stjórnarnefnd sem kemur saman og heldur stjórnarfundi.“

Við Lækjartorg stendur reisulegt hvítkalkað hús með gráu þaki, ein elsta og mest einkennandi bygging Reykjavíkurborgar, Stjórnarráðshúsið. Saga hússins er undarlegri og blóðugri en margur gerir sér grein fyrir en það var upphaflega byggt sem fangelsi. „Tukthúsið er að einhverju leyti upphafsreitur okkar samfélags í dag,“ segir Haukur Már. Hann fjallar um sögu fyrsta fangelsis á Íslandi í nýrri skáldsögu sinni, Tugthúsinu. Haukur ræddi bókina og sögu Stjórnarráðshússins í Lestinni á Rás 1.  

Vildu hengja fólk í sparnaðarskyni 

Fyrsta fangelsi á Íslandi var reist við Arnarhól upp úr 1760 og fyrstu sjö fangarnir sem þar dvöldu tóku þátt í að reisa það. Það var að einhverju leyti hagkvæmnisaðgerð að reisa fangelsið því fram að því höfðu fangar verið sendir til Kaupmannahafnar til afplánunar sem var kostnaðarsamt fyrir íslenska stjórnsýslu. „Þetta er orðið þeim svo dýrt að veita þeim fæði og húsaskjól yfir vetur, borga kaupmönnum fyrir að sigla með þá og svo framvegis,“ útskýrir Haukur Már.  

Fyrir vikið tóku allir sýslumenn landsins höndum saman og undirrituðu sameiginlegt bænaskjal til Danakonungs um að fá að hengja smáglæpamenn frekar en að standa að þessari kostnaðarsömu afplánun. „Þannig að í sparnaðarskyni vilja þeir fá að hengja menn fyrir sauðaþjófnað og þess háttar eins og hafði þá einu sinni tíðkast.“ 

Fangar voru þrælar í verksmiðjum 

Á þessum tíma var upplýsingin í hámarki í Evrópu og á Norðurlöndum. Aðalráðgjafi konungs tók við bréfi íslensku sýslumannanna og hann rak í rogastans. „Hann fær þetta erindi sýslumanna í hendurnar, er ígildi forsætisráðherra á þeim tíma, og kollbregður og skrifar mjög ítarlega greinargerð um hversu hræðileg hugmynd þetta sé, hversu hræðilegar afleiðingar þetta myndi hafa og lýkur á því að stinga upp á að í staðinn fyrir að hengja jafn marga og kostur er verði reist á landinu sjálfu tukthús.“ 

Ákvörðun var tekin um að reisa fangelsi á Íslandi og tveir staðir komu til greina, við Arnarhól eða gömul klausturjörð á Norðurlandi. „Það er Skúli Magnússon fógeti sem fær því framgengt að húsið verði frekar reist hér og það megi nota fangana sem vinnuafl fyrir verksmiðjurnar.“  

Tukthúsið upphafsreitur misbeitingar valds 

Tukthúsið var hræðileg stofnun, að sögn Hauks Más. „Síðustu ár og áratugi höfum við verið að fást við atburði úr nýliðinni sögu og erum enn þá að læra það,“ segir hann. „Hér gerist saga sem er að mörgu leyti hliðstæð við þær sögur sem hafa átt sér stað hvar sem fólki er hrúgað saman á landinu tilneytt eða settar þær skorður að dvelja undir yfirvaldinu í sameiningu.“ Hann vísar til hryllilegra frásagna sem hafa komið upp á yfirborðið undanfarin ár um dvöl fólks á vistheimilum og öðrum stofnunum þar sem harðræði var beitt.  

„Valdinu þar hefur greinilega oft verið misbeitt,“ heldur hann áfram. „Kannski má líta á misbeitinguna sem átti sér stað í þessu húsi sem eins konar upphafsreit.“ Tukthúsið var ef til vill fyrsta nútímastofnun landsins. „Þetta er fyrsta stofnun sem er sett á laggirnar með þar til gerðri stjórnarnefnd sem kemur saman og heldur stjórnarfundi.“  

Refsað fyrir fátækt og dónaskap 

Líklega fóru meira en 500 fangar í gegnum tukthúsið á því 50 ára tímabili sem það var starfrækt, eða allt til 1813. Þetta voru sjaldan stórglæpamenn, fyrst og fremst fátæklingar sem stálu til að hafa í sig og á. „Langflest brotin snúast um þjófnaði, þessa sem upphaflega átti að hengja fólk fyrir, og svo lausagöngu; að vera ekki í fastri vist.“  

Fólki var með öðrum orðum refsað fyrir að vera atvinnulaust eða fátækt. „Oft fór þetta saman vegna þess að ef þú varst ekki í fastri vist þá hafðir þú enga leið til að nærast nema annað hvort að betla eða stela.“ Engar verslanir voru á landinu á þessum tíma og því engin leið fyrir almenning að eiga viðskipti með matvæli. „Þannig að rosalega mikið af körlum og konum í húsinu voru hérna inni fyrir lausagöngu, þjófnað og svo bætast við agabrot; að vera hortugur, vera dónalegur.“ 

„Fyrst og fremst er þetta bara, maður myndi ekki einu sinni segja ógæfufólk. Í dag er þetta fólk sem lendir í atvinnuleysi, á ekki í sig og á, er að krafsa sig fram úr því.“ 

Sultur og barsmíðar drógu fanga til dauða 

Aðstæður í fangelsinu virðast hafa verið hræðilegar og ungt fólk dó oft aðeins örfáum mánuðum eftir að því var stungið inn. Það lést ýmist úr sjúkdómum, hungri eða eftir að hafa verið beitt ofbeldi. „Tilfellið er að það eru tvær stórar bylgjur af dauðsföllum í húsinu,“ segir Haukur.  

Fyrri bylgjan er í og upp úr móðuharðindunum. Þá er gert átak í því að læsa sem flesta inni til að koma í veg fyrir lausagöngu fólks í hræðilegu harðræði. „Þau eru svelt hérna inni. Það deyr fullt af fólki af vannæringu og sá sultur endist einu til tveimur árum lengur en harðærið utan hússins.“ Sú seinni er á árum Napólensstríðsins þar sem átök um yfirráð á hafi leiddu til skorts á vistum á Íslandi. „Aftur er brugðist við sulti og skorti sem agavandamáli.“ 

„Í fyrra skiptið er það reyndar sýnilegra ásetningsverk stjórnvalda en í seinna skiptið eitthvað sem birtist meira eins og vanræksla vegna spillingar. Menn eru að fást við annað en fólk deyr allt að einu.“ 

Haukur Már segir að líf fanga hafi verið murkað úr þeim með ýmsum ógeðsfelldum hætti. Auk sults og vannæringar var ofbeldi beitt. Það var komið á skipulögðum refsingum við agabrotum á borð við flóttatilraunir og bareflum er beitt. „Þar sem einn skammtur af höggum voru 27 högg með kylfu sem er alltaf kölluð tampur og margir báru ekki sitt barr eftir það, hvort sem þeir dóu beint í kjölfarið eða ári síðar.“ 

Frelsi í skáldskapnum  

Haukur hefur lagt mikið upp úr rannsóknarvinnu til grundvallar skáldsögunnar, lesið skýrslur og dómsskjöl og reynt að fá heildstæða mynd af fyrsta fangelsi landsins. Hann segist þó ekki vera sagnfræðingur og honum því ekki tamt að skrifa bók sem slíkur. „Þess utan held ég að þetta er svo mikil alþýðusaga, þetta er svo mikil saga almennings í þessu landi þar sem yfirvaldið birtist sem einhvers konar andstæðingur ef ekki óvinur.“ Honum fannst því eiga betur við að miðla henni þannig að hún skili sér til sem flestra, í formi skáldsögu.  

Skáldsagan er sett upp sem skýrsla starfsmanns sem nýtir næturvaktir sínar í að skrifa. Haukur segir að kostur þess að vinna með skáldsagnaformið sé að geta sett sig í fótspor starfsmannsins. „Opna möguleikann á því að skrifa senur,“ útskýrir hann. „Ekki bara vera með hrá og þurr gögn.“ 

Hann nefnir sem dæmi að í bréfabók hafi hann fundið kvörtun yfirmanns yfir því hve tregur undirmaður hans var við að pynta fangana. „Ef ég væri að skrifa sagnfræði þá allavega þekki ég ekki mörg þess háttar rit þar sem þú hefur þetta svigrúm til að setja sig í fótspor persónunnar sem er sett í þessar aðstæður.“ 

Rætt var við Hauk Má í Lestinni á Rás 1. Hlýða má á þáttinn í heild sinni hér í spilara RÚV. 

Tengdar fréttir

Stjórnmál

Vilja hverfa frá refsimenningu til batamenningar

Bókmenntir

Ó - Um þegnrétt tegundanna í íslenskri náttúru