Tímaflakk, furða og raunsæi

Mynd: RÚV / Bjartur-Veröld

Tímaflakk, furða og raunsæi

23.11.2022 - 15:26

Höfundar

„Að miklu leyti er sagan stúdía á hinu mótsagnakennda lífsviðhorfi sem „náðargáfan“ eða útsýnið laðar fram hjá sögukonunni Þessar hliðar sögunnar eru frjóar, ögrandi og stundum óhugnalegar, en vekja líka upp spurningar um áreiðanleika sögumannsins.“ Sölvi Halldórsson rýnir í nýja skáldsögu Guðrúnar Evu Mínervudóttur, Útsýni.

Sölvi Halldórsson skrifar:

Út er komin ný skáldsaga eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur. Bjartur gefur út og á rykkápunni er málverk Francesco del Cossa af heilagri Lúsíu. Höfuð Lúsíu er aframmað en hendi hennar þræðir sig inn á milli titilsins og nafns höfundar á forsíðunni. Í hendi Lúsíu er einkennileg planta, með örlítið þreytulegum augnsvip þar sem ættu að vera tvö laufblöð. Augu sem harmónera fallega við titil skáldsögunnar: Útsýni.  

Höfundarverk Guðrúnar Evu er nokkuð fjölbreytt en heildstæð flóra. Það sem bindur ólíku verkin þar saman er hin hrifnæma, hóflega hátíðlega og húmóríska rödd Guðrúnar. 

Árið 2016 urðu áhugaverð skil á rithöfundarferli Guðrúnar. Með Skeggi Raspútíns, og verkunum sem fylgdu í kjölfarið, Ástin, Texas og Aðferðir til að lifa af, var líkt og höfundur hefði skipt um gír. Í staðinn fyrir þrælplottaðar sögur með nettum blockbuster-brag eins Yosoy og Allt með kossi vekur, komu styttri og rólegri verk, með afslappaðari uppbyggingu. Frásagnir sem fengu að lulla áfram í lága drifinu, og komust fyrir vikið á dálítið aðra leiðarenda en hinar fyrri höfðu gert.  

Þess vegna var ég forvitinn þegar ég fékk Útsýni í hendurnar, því bókin er talsvert lengri en síðustu tvö skáldverk Guðrúnar. Sagan er 368 blaðsíður og framan af virtist hún vera vísindaskáldsaga. Sagan streitist þó á móti hefðbundnum bókmenntagreinaflokkunum og mætti líka kalla sálfræðitryllir eða dýrlingasögu. Útsýni sver sig bæði í ætt við hinar stórskornu og epísku skáldsögur höfundar, en gengur líka í sama ljúfa hægindatakti og síðari bækur Guðrúnar.  

Útsýni er tilvistarleg saga ungrar konu, Sigurlilju van der Waal, sem ferðast á Bakkafjörð til að ganga frá dánarbúi ömmusystur sinnar. Sigurlilja, eða Lilja, er þrítug, nokkuð hávaxin og einræn týpa sem flakkar á milli starfa sem hún hefur ekki mikinn áhuga á. Eins og hún segir sjálf á fyrstu blaðsíðunni, er lítið um að vera hjá henni persónulega, og það er í einhverjum skilningi satt, en lykilorðið þar er persónulega. Lilja er nefnilega ekkert svo persónuleg sögupersóna. 

Ellefu árum áður en sagan hefst vaknar Lilja upp eina nótt á heimili sínu, ráfar út milli svefns og vöku og sér undarleg ljós á næturhimninum. Næst rankar hún við sér með hrufluð hné, köld og veðurbarin í Hafnarfjarðahrauninu. Allar götur síðan er Lilja fullviss um að hún muni ekki verða langlíf, og fær öðru hvoru eins konar aðgang inn í vitundir annarra. Í draumi lifir hún dag og dag eða stund og stund í lífi annarra. Sér út um augu þeirra og er þau á meðan. Finnur til, gleðst, og kemst að öllu fögru og sáru um viðkomandi.  

Þessi tíðu innlit í líf annarra móta lífsviðhorf og framferði Lilju á dramatískan hátt. Eitthvað innra með Sigurlilju kiknar frammi fyrir öllum sorgum, takmörkunum, tilætlunarsemi, viðkvæmni, heift, sjálfshatri og skömm fólksins sem hún kynnist í draumum sínum. Hún lamast af ótæmandi æðruleysi, glatar allri persónulegri stefnu og hættir að bera nokkrar væntingar til eigin lífs. Verður, eins og hún segir sjálf, metnaðarlaus hengilmæna. Á sama tíma dáist móðir Lilju að dóttur sinni fyrir að hafa ekki minnstu þörf fyrir að stjórnast í einu né öðru og að finnast hún ekki þurfa að sanna sig fyrir öðrum. Sjálf segist Lilja þó einna helst þjást af mikilmennskubrjálæði. 

Sama hvað tautar og raular í þeim mæðgum orkar eirð og æðruleysi Lilju stundum á lesandann líkt og hún sé í sjálfsvígshugleiðingum. Yfir Lilju er þó einhver hlýr og mjúkur léttleiki sem flækir þá túlkun. Lilja er ekki þunglynd, en stendur gjörsamlega utan garðs í samfélagi mannanna. Henni þykir vænt um heiminn, og alla mannlega reynslu, skilur öll sjónarmið en sér ekki tilganginn í að finna upp á draumum til að elta sjálf. Vandamálið er ekki að Lilja viti ekki hvað hana langar, heldur langar hana einfaldlega ekkert, og stendur nokkuð fast á sínu. Vangaveltur sögukonunnar minna til skiptis á Meurseult í Útlendingnum eftir Albert Camus og Jesús Krist Nýja Testamentsins. Að miklu leyti er sagan stúdía á hinu mótsagnakennda lífsviðhorfi sem „náðargáfan“ eða útsýnið laðar fram hjá sögukonunni Þessar hliðar sögunnar eru frjóar, ögrandi og stundum óhugnalegar, en vekja líka upp spurningar um áreiðanleika sögumannsins. 

Stórir hlutar sögunnar eru helgaðir draumförum eða „heimsóknum“ inn í líf annarra, sem og sögunum sem fólk segir lilju sjálft. Í frásögninni koma þannig margir sögumenn að borðinu. Það er sérstaklega ánægjulegt að komast í kynni við svo ólík sjónarhorn í einni og sömu skáldsögunni, og Guðrúnu tekst að ljá hverjum og einum þeirra sína eigin rödd, til að miðla sögu sinni á frjóan, áríðandi og sláandi hátt. Enskuskotið eða kjarnyrt, háfleygt eða umbúðalaust. Útkoman er margradda og skraddaralega stíluð skáldsaga. Sumir sækja í „mosakenndar tilfinningar„, á meðan aðrir eru „með einhvern terror í blóðinu“, og enn aðrir drekka koníak þar til þeir finna fyrir „lifandi syfju“. Allt leggur þetta á plóg við að skapa sannfærandi og eftirminnilegar persónur. Og þær eru margar í þessari skáldsögu vegna þess að aðalpersónan Sigurlilja er ekki beint í forgrunni frásagnarinnar, heldur stendur eins og henni álengdar.  
Fyrir bragðið er örlítið erfitt að ná utan um eiginlega framvindu sögunnar, því hún er margslungin og ekki einhöm. Lilja gengur frá dánarbúi ömmusystur sinnar, kynnist mannlífinu á Bakkafirði og þegar sígur á seinni helminginn fer sagan fullum fetum inn í furðuna sem búið var að tæpa á í fyrri hlutanum. Nokkuð sem þó reynist líka vera lykillinn að jarðbundnari túlkun sögunnar, fyrir þá lesendur sem kjósa það.  

Með því að tvinna saman margs konar tímaflakki, tilraunakenndum frásagnarhætti, svimandi furðu og glerhörðu raunsæi, tekst höfundi að gera ólíkum flötum veruleikans skil í sérlega bitastæðum texta. Útkoman er hlý, djúp og tær.

 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

„Við erum öll svo takmörkuð af okkar eigin sjónarhorni“

Bókmenntir

„Kom mér óvart upp akademíu í bakgarðinum“

Bókmenntir

Portrett af skáldkonu

Bókmenntir

Ekki til neitt sem heitir venjulegt fólk