Tekist á um blóðsýni fyrir dómi og yfirlýsingu Þórólfs

23.11.2022 - 22:01
Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson
Íslensk erfðagreining telur að grundvallarforsenda Persónuverndar fyrir ákvörðun sinni um að fyrirtækið og Landspítalinn hafi brotið persónuverndarlög með COVID-rannsókn sinni sé röng. Persónuvernd hafi litið fram hjá því að fyrirtækið hafi verið að vinna fyrir sóttvarnalækni og Landspítalann.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í stefnu Íslenskrar erfðagreiningar þar sem þess er krafist að ákvörðun Persónuverndar frá því í nóvember á síðasta ári verði felld úr gildi. Fréttastofa fékk stefnu Íslenskrar erfðagreiningar og greinargerð ríkislögmanns afhenta í dag. Fyrirtaka í málinu er á morgun.

Blóðsýni í byrjun apríl aðal-deilumálið

Persónuvernd taldi að Íslensk erfðagreining og Landspítalinn hefðu brotið persónuverndarlög þegar tekin voru blóðsýni úr sjúklingum sem lágu inni á Landspítala með COVID-19 í byrjun apríl fyrir tveimur árum.  

Persónuvernd sagði blóðsýnin hafa verið send til Íslenskrar erfðagreiningar sem viðbót við rannsókn á faraldursfræði kórónuveirunnar. Þetta hefði verið gert áður en Vísindasiðanefnd hefði veitt leyfi sitt.

Persónuvernd beitti ekki sektum þar sem stofnunin sagði að uppi hefðu verið sérstakar aðstæður og íslensku samfélagi staðið ógn af hinni nýju veiru. 

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, var ákaflega ósáttur við þessa niðurstöðu og lýsti því strax yfir í fjölmiðlum að fyrirtækið myndi reyna fá henni hnekkt fyrir dómstólum. Og nú er það dómsmál hafið.

Alma og Þórólfur: ÍE gegndi lykilhlutverki

Stefna Íslenskrar erfðagreiningar er umfangsmikil. Í henni er rakin aðkoma fyrirtækisins að aðgerðum íslenskra yfirvalda og hvernig íslenskum heilbrigðisyfirvöldum hafi snemma orðið ljóst að þau hefðu ekki afkastagetu, mannafla eða tækjabúnað til að skima fyrir veirunni eða greina sýni.  

Þannig er meðal annars vitnað til bréfs sem Alma Möller, landlæknir, og Þórólfur Guðnason, þáverandi sóttvarnalæknir, skrifuðu til Persónuverndar í október 2020.

Í bréfinu segja þau að án aðkomu Íslenskrar erfðagreiningar hefðu opinber viðbrögð við faraldrinum orðið áhrifaminni með ófyrirséðum afleiðingum fyrir almenning hérlendis.   Fyrirtækið hafi síðan gegnt lykilhlutverki þegar búnaður sýkla-og veirufræðideildar LSH bilaði.

Mynd með færslu
 Mynd: Júlíus Sigurjónsson - Ríkislögreglustjóri

Blóðsýnin hluti af læknismeðferð

Íslensk erfðagreining telur að grundvallarforsendan fyrir ákvörðun Persónuverndar hafi verið röng. Blóðsýnin sem tekin voru í apríl hafi ekki verið í þágu viðbótarrannsóknar heldur að beiðni heilbrigðis-og sóttvarnayfirvalda í því skyni að veita sjúklingum læknismeðferð sem lágu inni með COVID-19 . 

Íslensk erfðagreining telur fleira til í stefnu sinni.

Fyrirtækið er meðal annars þeirrar skoðunar að Persónuvernd hafi með ákvörðun sinni farið inn á valdsvið Vísindasiðanefndar.  Vísindasiðanefnd hafi áður lýst því yfir í samskiptum sínum við Íslenska erfðagreiningu að blóðsýnin hefðu verið tekin í læknisfræðilegum tilgangi.  

Þá segir Íslensk erfðagreining að  Persónuvernd hafi með öllu litið fram hjá þeim kringumstæðum sem voru upp í íslensku þjóðfélagi.

Ákvörðunin hefði átt að beinast að sóttvarnalækni

Fyrirtækið bendir jafnframt á að það  hafi verið að vinna fyrir sóttvarnalækni og stjórnvöld við alvarlegt hættuástandi „þegar ríkið sjálft hafði ekki tæknilega getu eða burði til að sinna bráðnauðsynlegum verkefnum í tengslum við sóttvarnir og meðferð sjúklinga sem veikst höfðu af COVID-19 sjúkdómnum.“

Íslensk erfðagreining telur að ákvörðun Persónuverndar hafi því beinst að röngum aðila; það hafi ekki verið fyrirtækið sem tók blóðsýnin í þeim tilgangi að nýta þau í vísindarannsókn heldur Landspítalinn annars vegar og sóttvarnalæknir hins vegar. 

Ríkislögmaður gefur lítið fyrir yfirlýsingu Þórólfs

Í greinargerð ríkislögmanns er þess krafist að ákvörðun Persónuverndar verði staðfest. Þar er meðal annars vikið að því að ekkert bendi til þess að sóttvarnalæknir hafi hlutast til um umrædda sýnatöku.  

Yfirlýsing frá Þórólfi Guðnasyni sem Íslensk erfðagreining vísi til hafi verið gefin út undir kvöld 6. apríl. Sýnatakan hafi þá verið að klárast og yfirlýsingin hafi því enga þýðingu.  Ekki sé því rétt að sýnatakan hafi verið hluti af störfum Íslenskrar erfðagreiningar fyrir sóttvarnalækni. 

Ríkislögmaður vísar því einnig á bug að blóðsýnatakan hafi verið þáttur í störfum fyrir Landspítala.   Ekkert liggi fyrir að niðurstöðurnar úr greiningum á sýnum hafi gagnast sjúklingum síðar meir.

Lögmaður ÍE gagnrýnir málatilbúnað ríkislögmanns

Á það er bent að Persónuvernd hafi ítrekað leitað skýringa frá Landspítala um hvort blóðsýnin hefðu nýst vegna meðferðar sjúklinga. Íslensk erfðagreining haldi því fram að niðurstöður mótefnamælinga hafi verið sendar Landspítala en spítalinn búi ekki yfir vitneskju um að neinar niðurstöður hafi borist. 

Lögmaður Íslenskrar erfðagreiningar lagði fram bókun við fyrirtöku þann 19. október þar sem hann gerði alvarlegar athugasemdir við málatilbúnað ríkislögmanns.  

Á það var bent að ríkislögmaður færi einnig með vörn Landspítalans í málinu sem Persónuvernd teldi hafa brotið persónuverndarlög.  

Í bókuninni er bent á að ríkislögmaður ráðstafi hagsmununum Landspítalans með því að styðja við hagsmuni Persónuverndar. Þetta feli í sér brot á sanngjarnri málsmeðferð og leiði til þess að Íslensk erfðagreining standi höllum fæti gagnvart ríkinu.