Strætóbiðstöðvar með slæmt aðgengi í 99% tilfella

23.11.2022 - 18:20
Strætóbiðstöð við íbúðargötu í Reykjavík, sem er bara staur með gulu og bláu merki á toppnum og grænni ruslatunnu.
 Mynd: Ásrún Brynja Ingvarsdóttir - RÚV
Aðgengi fyrir fatlað fólk er slæmt að 166 af 168 strætóbiðstöðvum á landinu. Formaður ÖBÍ segir að þetta sé verra en nokkurn hefði grunað.

Báðar biðstöðvarnar sem eru með gott aðgengi eru við Klambratún í Reykjavík.

Ekkert aðgengi að 18 biðstöðvum

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ réttindasamtaka, segir að niðurstöðurnar dragi upp dökka mynd. Í skýrslunni kemur fram að af öllum 168 stöðvunum, voru 66 nothæfar fyrir hjólastólanotendur, 67 fyrir göngu-, arma- og handskert fólk, 139 fyrir fólk með þroskahömlun en aðeins sjö fyrir blint og sjónskert fólk. „Víða eru bara biðstöðvarnar ekkert annað en staur við veginn og það eru 18 biðstöðvar þar sem enginn fötlunarhópur getur notað þær.“

Voruð þið viðbúin þessum niðurstöðum? „Engan veginn og þetta hlýtur að setja svolítið strik í reikninginn því samkvæmt áætlun stjórnvalda eiga 90% af biðstöðvunum að vera orðnar aðgengilegar árið 2024 og ég veit ekki alveg hvernig það á að gerast þegar meira en 90% af biðstöðvunum eru algerlega óaðgengilegar.“

Mynd með færslu
 Mynd: ÖBÍ réttindasamtök

Allar biðstöðvar á landsbyggðinni með mjög slæmt aðgengi

Höfuðborgarsvæðið kemur betur út en landsbyggðin þar sem allar biðstöðvar eru með mjög slæmt aðgengi og yfirborð. „Ef við ætlum að taka eitthvað jákvætt út úr þessu þá er það bara mjög gott að þessi niðurstaða er komin fram þannig að núna hafa stjórnvöld þetta alveg svart á hvítu, hversu alvarleg staðan er og þá verða þau að taka þetta alvarlega og byrja þegar vitað er hvað verkefnið er brýnt. Það þarf að setja fjármagn í þetta verkefni,“ segir Þuríður.