Skoðað verður hvort rannsaka eigi mál Skeggja

23.11.2022 - 20:03
Mynd: RÚV / RÚV
Forsætisráðherra segir að skoðað verði hvort hefja eigi rannsókn á meintu kynferðisofbeldi Skeggja Ásbjarnarsonar, sem var kennari í Laugarnesskóla, gegn drengjum í bekk hans. Hún boðar nýja og einfaldari leið við greiðslu sanngirnisbóta.

Skeggi Ásbjarnarson var  kennari við Laugarnesskóla frá 1943 til 1977 og einnig þekktur fyrir sjá um barnatíma Ríkisútvarpsins. Í bók Bjargar Guðrúnar Gísladóttir Hljóðin í nóttinni, sem kom út fyrir átta árum kom fram að Skeggi hefði misnotað drengi sem hann kenndi og beitt stúlkur ofbeldi. Þorsteinn J. Vilhjálmsson fjölmiðlamaður kafaði ofan í málið og gerði útvarpsþáttaröð, sem flutt var á RÚV, þar sem hann ræddi við fjölda fyrrverandi nemenda Skeggja, samstarfsmenn og fleiri, en þar greinir fjöldi karlmanna frá brotum gegn sér þegar þeir voru barnungir nemendur Skeggja.

Ekki verður annað ráðið af þáttunum en að stjórnendum Laugarnesskóla, sem þá var á forræði ríkisins, hafi ítrekað verið gerð grein fyrir framferði Skeggja án þess að nokkuð væri aðhafst. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að ekkert erindi hafi borist til sín frá þolendum eða öðrum um að málið verði rannsakað, málið sé sláandi og hún búist við að stjórnvöld ræði málið. 

„Ég útloka það ekki og eins og ég segi þó mér hafi ekki borist erindi þá kann það að vera að einhverjum öðrum hafi borist erindi um þessi mál þannig að það verður líka skoðað núna á næstu dögum,“ segir Katrín Jakobsdóttir.

Sem kunnugt er hafa ýmsar rannsóknir farið fram undanfarin ár á ofbeldi gegn skjólstæðingum hins opinbera á árum áður og fleiri eru í burðarliðnum. Katrín er með frumvarp í vinnslu um greiðslu sanngirnisbóta sem byggir á fyrirkomulagi sem hefur verið viðhaft í Noregi um skeið

„Þar sem gert er ráð fyrir því að fólk geti leitað á einn stað vegna misgjörða af hálfu opinberra aðila og fengið þær viðurkenndar með tilteknum hætti. Það eru auðvitað ekki einhvers konar miskabætur sem að bæta miska út frá lögformlegum leiðum, heldur fyrst og fremst viðurkenning hins opinbera á mögulegum misgjörðum.“

Katrín vonast til að geta kynnt málið í næsta mánuði. Með nýja fyrirkomulaginu færi fram ákveðin skoðun á málunum, en ekki tímafrek rannsókn. Ef viðkomandi hafi verið á stað sem þegar hafi verið til rannsóknar einfaldi það málið enn frekar.

 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV